Lokað á aðfangadag


Leikskólar Árborgar verða lokaðir á aðfangadag, 24. desember 2018.

Gjaldskrárbreytingar 1.janúar 2019


Kæru foreldrar/forráðamenn

Á 7. fundi bæjarstjórnar, 12. desember 2018, var samþykkt að hækka gjaldskrá fyrir leikskóla í Árborg 2019 um 3,6% frá og með 1. janúar 2019. Gjaldskráin verður aðgengileg á heimasíðu Árborgar, heimasíðu leikskólans og í forstofum leikskólans um áramót.

Við viljum einnig minna á að ef foreldrar/forráðamenn óski eftir að breyta dvalartíma og eða/kaupum á mat/hressingu verða þeir að tilkynna það viðkomandi leikskólastjóra eigi síðar en 15. hvers mánaðar. Breyting á gjaldtöku tekur þá gildi næstu mánaðamót á eftir.

Kveðja leikskólastjóri.

Kvennafrí 24. október 2018 kl.14:55


Kæru foreldrar og fjölskyldur

Jötunheimar verða lokaðir miðvikudaginn

24. október 2018 frá kl. 14:55.

Hér fyrir neðan eru frekari upplýsingar.

 

KVENNAFRÍ 2018 – KVENNAVERKFALL

Miðvikudaginn 24. október 2018, eru konur hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55, mæta á samstöðufundi og/eða taka þátt á táknræna hátt í samstöðu undir kjörorðinu: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!

Á vef viðburðarins, www.kvennafri.is, segir meðal annars:

„ Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047 – eftir 29 ár! Eftir því getum við ómögulega beðið!

Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn 24. október árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um land allt niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Þær vildu mótmæla og vekja athygli á launamisrétti, vanmati á störfum kvenna, skorti á virðingu og valdaleysi kvenna. Hjól atvinnulífsins og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag. Fundurinn vakti athygli um allan heim og sýndi að samstaðan er sterkasta vopnið.

Síðan hafa konur komið saman og krafist kjarajafnréttis og samfélags án ofbeldis fjórum sinnum ­– árin 1985, 2005, 2010 og 2016 – en betur má ef duga skal: Þótt Ísland eigi að heita paradís fyrir konur í alþjóðlegu samhengi er ljóst að víða er pottur brotinn. Enn er langt í land með að ná jöfnum launum og jöfnum kjörum. Enn verða konur fyrir kynbundnu ofbeldi og áreitni á vinnustöðum sem og heima fyrir, eins og #MeToo bylgja síðasta vetrar minnti okkur öll harkalega á. Enn eru kvennastörf minna metin þegar kemur að launum, réttindum og virðingu í samfélaginu.

Nú reynir á samstöðumátt kvenna en ekki síður á samfélagið sjálft sem loksins, loksins hlýtur að geta sameinast um að breyta þessu. Hættum að breyta konum – breytum samfélaginu – til hins betra!“

Kennarasamband Íslands hvetur sveitarfélög til að sýna konum stuðning í

baráttunni með því að sýna samstöðu.

 

Að baráttufundi á Arnarhóli á kvennafríi 24. október 2018 standa eftirfarandi samtök kvenna og launafólks:

Aflið, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag kvenna í Reykjavík, BSRB, Delta Kappa Gamma – félag kvenna í fræðslustörfum, Druslubækur og doðrantar, Efling, Femínísk fjármál, Femínistafélag Háskóla Íslands, FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu, Félag um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, IceFemIn – Icelandic Feminist Initiative, Jafnréttisfélag Háskólans í Reykjavík, Kennarasamband Íslands, Knúz.is, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennakirkjan, Kvennahreyfing ÖBÍ, Kvennaráðgjöfin, Kvennasögusafn Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, MFÍK, Rótin, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtök um kvennaathvarf, Samtökin ’78, Soroptimistasamband Íslands, Stelpur rokka!, Stígamót, Ungar athafnakonur, UN Women, VR, WIFT – Konur í kvikmyndum og sjónvarpi, W.O.M.E.N. in Iceland – Samtök kvenna af erlendum uppruna, Zontasamband Íslands.

Kærar kveðjur

Stjórnendur Jötunheima

10 ára afmæli Jötunheima


Laugardaginn 8. september fagnar leikskólinn Jötunheimar 10 ára afmæli sínu.

Í tilefni þess var opið hús í leikskólanum föstudaginn 7. september frá klukkan 9.00-11:00 og 13:00-15:30.

Börnin tóku virkan þátt í að undirbúa afmæli leikskólans meðal annars með því að túlka upplifun sína í máli og myndum.

Kóróna leikskólans

Foreldrafélagið gaf okkur þessa flottu kubba og þökkum við þeim kærlega fyrir.

Við þökkum kærlega fyrir þær gjafir sem okkur bárust.  Margt var um manninn og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.

Kveðja, starfsfólk Jötunheima

Leikskólinn Jötunheimar auglýsir lausa stöðu matráðs/matreiðslumanns.


Leikskólinn Jötunheimar auglýsir lausa stöðu matráðs/matreiðslumanns í 100% starf. Leitað er að metnaðarfullum einstaklingi sem getur hafið störf sem fyrst.

 Helstu verkefni:

 • Hefur yfirumsjón með eldhúsi og starfar samkvæmt starfslýsingu matráðs í leikskólanum
 • Sér um innkaup og gerð matseðla
 • Fer eftir fjárhagsáætlun hvað varðar matarinnkaup
 • Hefur næringu og hollustu í huga í allri matseld
 • Sækir endur- og símenntun til að fylgjast með nýjungum í starfi
 • Hefur yfirumsjón með þvottahúsi
 • Annast önnur þau verkefni sem yfirmaður felur honum

 Menntun og hæfniskröfur:

 • Menntun, reynsla og/eða þekking á matseld
 • Færni í mannlegum samskiptum
 • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
 • Frumkvæði og metnaður í starfi
 • Hagsýni í innkaupum
 • Góð íslenskukunnátta
 • Færni til að tjá sig í ræðu og riti
 • Jákvæðni og áhugasemi

Umsóknarfrestur er til 12. september 2018

Starfið hentar jafnt körlum sem konum og launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

Frekari upplýsingar veitir Júlíana Tyrfingsdóttir, sími 480 6372 og áhugasamir geta sent umsóknir á netfangið julianat@arborg.is.

Verklag vegna afsláttar á leikskólagjöldum


Verklag vegna afsláttar á leikskólagjöldum

Afsláttur til einstæðra foreldra

 Afsláttur er veittur að fenginni umsókn. Umsókn skal endurnýjuð árlega, fyrir 15. ágúst og afhent leikskólastjóra í viðkomandi leikskóla. 

Umsóknareyðublöð eru hjá leikskólastjóra eða deildarstjóra.

 • Foreldri sem greiðir námsgjald sem einstætt foreldri þarf að vera skráður einstæður í þjóðskrá.
 • Sveitarfélagið Árborg getur óskað eftir frekari staðfestingu á því að foreldrar séu einstæðir, s.s. að þeir undirriti staðfestingu þess efnis.
 • Ef foreldrar skilja/slíta sambúð þarf að skila leikskólastjóra staðfestingu frá sýslumanni þess efnis.
 • Afsláttur reiknast frá 1. degi næsta mánaðar eftir að staðfesting hefur borist leikskólastjóra. Afsláttur sem veittur er á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga er endurkræfur samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og verða hlutaðeigandi krafðir um mismuninn.
 • Afsláttur er ekki veittur afturvirkt.

( Reglur um leikskóla í Árborg 1. janúar 2017)

Sumarleyfi í Jötunheimum 2018


Sumarleyfi í Jötunheimum 2018

Við erum í sumarfríi frá frá og með 5. júlí til og með 8. ágúst 2018. Við opnum aftur fimmtudaginn 9. ágúst 2018.

 

Útskrift 2018


Þann 29. maí 2018 útskrifaðist 31 nemandi frá leikskólanum Jötunheimum.

Pétur og úlfurinn


Í dag, miðvikudaginn 9. maí 2018, fengum við Bernd Ogrodnik í heimsókn með leikritið Pétur og úlfurinn. Mæltist leiksýningin vel fyrir hjá börnunum. Sýningin var í boði foreldrafélagsins, við þökkum þeim kærlega fyrir þessa skemmtilegu uppákomu.

Heimsókn í Jötunheima


Í vikunni 23.-27. apríl voru Metka Krajnc og Barbara Hernavs frá Celje í Slóveníu í heimsókn hjá okkur. Þær eru leikskólakennarar og voru í náms- og kynnisferð hér á Íslandi á vegum Erasmus+. Börn og starfsfólk sýndu þeim hvernig starfið okkar gengur fyrir sig og voru þær ánægðar með heimsóknina.