Þróunarverkefni 2014-2015


Árangursríkt læsi í leikskólum Árborgar

flott mynd

Leikur með læsi

Veturinn 2014–2015 var þróunarverkefnið Árangursríkt læsi unnið í öllum leikskólum í Árborg. Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla og fólst í því að efla læsi í leikskólunum, en læsi er einn af grunnþáttum skólastarfs á öllum skólastigum.

Markmið verkefnisins var að auka hæfni, þekkingu og leikni barna í læsi með því að þróa markvissar sögu- og samræðustundir sem fram færu daglega, með áherslu á aukinn hlustunar- og málskilning barna, aukinn orðaforða, hugtakaskilning og tjáningu. Unnið var með efnið Markviss málörvun, Lubbi finnur málbein og Orðaspjall, sem og samræðulestur og verkefni sem tengjast daglegu lífi barnanna.

Einnig var markmið verkefnisins að fræða foreldra leikskólabarna og styðja í hlutverki þeirra við málörvun barna. Hlutverk foreldra ungra barna í málörvun þeirra felst í góðri fyrirmynd, samræðum og lestri. Börn sem hafa greiðan aðgang að fullorðnum einstaklingum sem ræða við þau, lesa og kenna þeim ný orð og hugtök eiga öllu jöfnu auðveldara með að ná tökum á lestri. Orðaforða læra börn ekki síst hjá foreldrum sínum, enda leggja samræður og lestrastundir með fjölskyldunni grunn að bernskulæsi.

Lubbi í gönguferð með leikskólabjörnunum í Jötunheimum

Lubbi í gönguferð með leikskólabörnunum í Jötunheimum

Í ágúst 2014 var haldin ráðstefna fyrir allt starfsfólk leikskóla í Árborg á starfsdegi þeirra. Ráðstefnan var haldin á Stað, Eyrarbakka, og hófst með ávarpi Þorsteins Hjartarsonar fræðslustjóra og morgunverði. Edda Björgvinsdóttir leikkona fjallaði síðan um gleði og húmor og mikilvægi starfsgleði. Því næst kynnti Anna Magnea Hreinsdóttir verkefnisstjóri verkefnið og ræddi útgangspunkt þess; að starfsþróun kennara væri í þeirra eigin höndum og að talið sé að þróunarverkefni eins og hér um ræðir séu til þess fallin að efla vald kennara og annars starfsfólks. Þá er það sjálft við stjórnvölinn í þróuninni og virkt í öllu vinnuferlinu. Í verkefninu kynntust stjórnendur leikskólanna vinnu með markvissa málörvun með völdum hlustunar-, rím- og orðaleikjum ásamt hljóðgreiningu. Einnig kynntust þeir „Orðaspjallsaðferðinni“ sem er leið til að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Fjallað var um læsi í daglegu starfi, verkfæri við læsiskennslu og hvernig leikur getur nýst við málörvun og læsisnám. Einnig var umfjöllun um stafi og hljóð. Rætt var um stuðning við foreldra í hlutverki þeirra við málörvun barna og mikilvægi þess að þeir taki þátt og lesi fyrir börnin sín á hverjum degi. Að lokum var haldinn fyrirlestur um þarfir tvítyngdra barna sem mikilvægt er að hlúa vel að.

Helsti ávinningur verkefnisins að mati þátttakenda var aukin samvinna milli leikskóla og leikskólakennara. Þeim þótti gott að bera saman bækur sínar við kollega á samskonar deildum og tileinka sér það sem vel er gert annars staðar. Þeir töldu sameiginlega fundi nýtast vel. Börnin í leikskólunum sýndu þessu starfi mikinn áhuga og mátti greina miklar framfarir að mati kennaranna. „Þau biðja um að láta lesa fyrir sig, fara með þulur og kryfja orð endalaust,“ sagði einn þátttakandi. Ánægjulegt hafi verið að sjá börnin nýta sér þá þekkingu sem þau höfðu öðlast, auk þess sem áhugi barnanna á læsi hefði aukist svo eftir væri tekið. Einn þátttakandi sagði að starfið væri orðið miklu sýnilegra gagnvart utanaðkomandi aðilum.

Samhliða verkefninu hófu leikskólarnir vinnu við læsisstefnu hvers leikskóla. Hérna er læsisstefna leikskólans Jötunheima