Þróunarverkefni 2016-2017


Námsmat á mörkum skólastiga

Skólaárið 2016–2017 er unnið að þróunarverkefninu Námsmat á mörkum skólastiga í öllum leik- og grunnskólum í Árborg ásamt FSU. Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla og fólst í því að efla námsmat á mörkum skólastiganna. Verkefnastjóri er Rúnar Sigþórsson prófessor við Háskólann á Akureyri.

Markmið verkefnisins taka til þriggja þátta í starfi þátttökuskólanna. Þættirnir fléttast saman með ýmsu móti, styðja hver annan og mynda heild sem ekki verður rofin.

Þessir þættir eru:

1) námsmat og tilhögun kennslu með árangur og þroska barna og ungmenna að leiðarljósi

2) starfsþróun kennara og þróun skólamenningar í átt til lærdómssamfélaga (e. professional learning community)

3) samfella í leið nemenda á milli skólastiga.

Yfirmarkmið verkefnisins er að styrkja námsmat á mörkum skólastiga í þátttökuskólunum með það að meginmarkmiði að bæta námsaðstæður, nám og árangur nemenda í víðasta skilningi og auðvelda færslu þeirra (e. transition) milli skólastiga; sem forsendu þessa þarf að efla þekkingu og hæfni kennara á sviði námsmats og samspils kennslu, náms og námsmats og stuðla að hæfni skólanna til varanlegra breytinga á þessu sviði.

Í ofangreindu meginmarkmiði felst að:

1. Samræma skilning og útfærslu skólastiganna þriggja á ákvæðum Aðalnámskrár um mat á hæfni og um framsetningu námsmats,

2. auka samfellu og samkvæmni í námsmati milli skólastiga með það fyrir augum að auðvelda nemendum að flytjast milli skólastiga,

3. þróa leiðir sem farnar eru í þátttökuskólunum til að komast að þeim niðurstöðum um kunnáttu, leikni og hæfni nemenda sem miðlað er til nemenda, foreldra og næsta skólastigs þannig að þær séu allaf eins réttmætar, áreiðanlegar og sanngjarnar og kostur er,

4. þróa leiðir til þess að námsmat í skólunum sem hlut eiga að máli gegni leiðsagnarhlutverki sínu sem best, þannig að það sé raunverulega nemendum til leiðsagnar í náminu og hjálpi hverjum og einum að ná árangri á sínum forsendum.

5. vinna með samhengi námsmats og tilhögunar kennslu og náms og nýta leiðsagnarmat til að auka gæði náms nemenda,

6. efla starfsþróun kennara á sviði námsmats og efla starfshætti lærdómssamfélags innan skóla til að styðja við starfsþróun kennara.