Gjöf frá foreldrafélaginu

Körfuknattleiksdeild FSU færði okkur fjóra körfubolta að gjöf fyrr í vetur. Foreldrafélagið okkur kom síðan færandi hendi og gaf okkur körfuboltaspjald. Það hefur strax sýnt sig að mikill áhugi er á körfuboltanum og má því segja að þetta hafi slegið í gegn. Við þökkum fyrir góðar gjafir.

Leikskólinn er lokaður 19. og 21. apríl vegna starfsdags kennara.

Kæru börn og foreldrar

Leikskólinn verður lokaður miðvikudaginn 19. apríl og föstudaginn 21. apríl vegna starfsdags kennara.

Kveðja, leikskólastjóri.

Leikskólinn Jötunheimar auglýsir eftirfarandi stöður lausar til umsóknar

Leikskólinn Jötunheimar auglýsir eftirfarandi stöður lausar til umsóknar

Deildarstjóri Jötunheimar auglýsir eftir deildarstjóra í 100% starfshlutfall frá og með 10. ágúst 2017.

Menntun og hæfniskröfur: 

 • Leikskólakennaramenntun
 • góð íslensku kunnátta
 • áhugi, reynsla og hæfni í starfi með börnum
 • góðir skipulagshæfileikar
 • jákvæðni, frumkvæði og góður samstarfsvilji
 • góð færni í mannlegum samskiptum
 • sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
 • færni til að tjá sig í ræðu og riti

Helstu verkefni og ábyrgð: 

 • Starfar samkvæmt lögum og reglugerð um leikskóla, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá leikskóla og skólastefnu Árborgar
 • Tekur þátt í gerð skólanámskrár, ársáætlunar, mati á starfsemi leikskólans og þróunarverkefnum undir stjórn leikskólastjóra.
 • Ber ábyrgð á stjórnun, skipulagningu, framkvæmd og mati starfsins á deildinni
 • Annast daglega verkstjórn á deildinni og ber ábyrgð á að miðla upplýsingum innan deildarinnar, milli deilda leikskólans og milli leikskólastjóra og deildarinnar.
 • Ber ábyrgð á og stýrir deildarfundum og skipuleggur undirbúningstíma starfsfólks deildarinnar.
 • Hefur umsjón með móttöku, þjálfun og leiðsögn nýrra starfsmanna deildarinnar.
 • Fylgist með að deildin sé búin nauðsynlegum uppeldis- og kennslugögnum í samvinnu við leikskólastjóra.
 • Ber ábyrgð á að unnið sé eftir skólanámskrá og ársáætlun leikskólans á deildinni.
 • Tryggir að sérhvert barn á deildinni fái kennslu, leiðsögn, umönnun og/eða sérkennslu eftir þörfum.
 • Ber ábyrgð á að meðferðaráætlunum sérfræðinga vegna einstakra barna sé framfylgt.
 • Skipuleggur samvinnu við foreldra/forráðamenn barnanna á deildinni s.s. aðlögun, dagleg samskipti og foreldraviðtöl.
 • Ber ábyrgð á að foreldrar/forráðamenn fái upplýsingar um þroska og líðan barnsins og þá starfsemi er fram fer á deildinni og ekki varðar trúnað gagnvart öðrum börnum og foreldrum/forráðamönnum þeirra.
 • Situr foreldrafundi, sem haldnir eru á vegum leikskólans.
 • Ber ábyrgð á að leitað sé samþykkis foreldra/forráðamanna barns, áður en leitað er aðstoðar annarra sérfræðinga.
 • Skipuleggur samvinnu við ýmsar stofnanir og sérfræðinga sem tengjast leikskólanum í samráði við leikskólastjóra.
 • Situr starfsmannafundi, deildarstjórafundi og aðra fundi er yfirmaður segir til um og varðar starfsemi leikskólans.
 • Sinnir þeim verkefnum er varða uppeldi og menntun barnanna og stjórnun deildarinnar sem yfirmaður felur honum. 

 

Leikskólakennarar Jötunheimar auglýsa eftir leikskólakennurum í 100% starfshlutfall frá og með 10. ágúst 2017.

Menntun og færnikröfur:

 • Leikskólakennararéttindi
 • góð íslensku kunnátta
 • áhugi, reynsla og hæfni í starfi með börnum
 • góðir skipulagshæfileikar
 • jákvæðni, frumkvæði og góður samstarfsvilji
 • góð færni í mannlegum samskiptum
 • sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
 • færni til að tjá sig í ræðu og riti 

Helstu verkefni og ábyrgð:

 • Starfar samkvæmt lögum og reglugerð um leikskóla, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá leikskóla og skólastefnu Árborgar.
 • Vinnur að uppeldi og menntun barnanna. Fylgist vel með velferð þeirra og hlúir að þeim andlega og líkamlega í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins svo að þau fái notið sín sem einstaklingar.
 • Tekur þátt í gerð skólanámskrár, mati á starfsemi leikskólans og þróunarverkefnum undir stjórn leikskólastjóra.
 • Tekur þátt í skipulagningu faglegs starfs deildarinnar undir stjórn deildarstjóra.
 • Vinnur í nánu samstarfi við foreldra/forráðamenn barnanna.
 • Situr foreldrafundi, sem haldnir eru á vegum leikskólans.
 • Tekur þátt í samstarfi við ýmsar stofnanir og sérfræðinga sem tengjast leikskólanum í samráði við deildarstjóra.
 • Situr starfsmannafundi og aðra fundi er yfirmaður segir til um og varðar starfsemi leikskólans.
 • Sinnir þeim verkefnum er varðar uppeldi og menntun barnanna sem yfirmaður felur honum.

Umsóknarfrestur er til 15. apríl 2017. Jötunheimar:  https://jotunheimar.arborg.is/

Frekari upplýsingar veitir: Júlíana Tyrfingsdóttir leikskólastjóri Jötunheima, sími 480-6372, netfang:  julianat@arborg.is

Störfin henta jafnt körlum sem konum og launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

Í dag, mánudaginn 6. febrúar, er dagur leikskólanna.

Í tilefni hans er haldin hátíð í leikskólum landsins í tíunda sinn, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið.

Við í Jötunheimum fórum í gönguferð í nærumhverfi leikskólans með fána sem hver deild var búin að útbúa. Hér er að líta nokkrar myndir af skrúðgöngunni.

 

 

 

 

 

 

Starfsdagur 21.febrúar 2017

Leikskólinn verður lokaður þriðjudaginn 21. febrúar vegna starfsdags kennara til klukkan 12:00. Þá opnum við og bjóðum upp á léttan hádegisverð.

Dagskrá:

 • Þróunarverkefnið Námsmat á mörkum skólastiga.

Gjöf frá foreldrafélagi Jötunheima

Okkur hefur borist ofsalega góð gjöf frá foreldrafélagi Jötunheima. Þau gáfu okkur stafræna smásjá. Hún mun nýtast okkur  vel í skólastarfinu til þess að rannsaka allt milli himins og jarðar. Við getum tengt hana við tölvu og þannig fengið stóra og góða mynd af því sem við erum að skoða. Við getum síðan tengt tölvuna við skjávarpann í salnum og þannig nýtt stóra sýningartjaldið okkar. Endalausir möguleikar sem við hlökkum til að rannsaka. Takk kærlega fyrir okkur kæra foreldrafélag.

Gjaldskrárbreytingar um áramót

Kæru foreldrar

Á 29. fundi bæjarstjórnar, 14. desember 2016, var samþykkt að breyta gjaldskrá fyrir leikskóla, mat í leikskólum, skólavistun og skólamat í grunnskólum frá og með 1. janúar 2017. Gjaldskráin verður aðgengileg á heimasíðu Árborgar um áramót.

Um áramótin verður tekið upp nýtt kerfi sem felur í sér að leikskólastjórnendur gera alla reikninga, þeir fara síðan í Ráðhúsið sem sendir þá til innheimtu.

Við viljum einnig minna á að ef foreldrar/forráðamenn óski eftir að breyta dvalartíma og eða/kaupum á mat/hressingu verða þeir að tilkynna það viðkomandi leikskólastjóra eigi síðar en 15. hvers mánaðar. Breyting á gjaldtöku tekur þá gildi næstu mánaðamót á eftir.

Innritunarferli leikskólanna verður frá næsta vori rafrænt í gegnum Mín Árborg og leikskólastjórnendur sjá þá um innritun nýrra nemenda.

Ef einhverjar spurningar vakna þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við leikskólastjóra.

Jólakveðja

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á liðnu ári.

Megi komandi ár verða farsælt og gjöfult í leik og starfi.

Hafið það gott um jól og áramót.

Jólakveðja

Starfsfólk Jötunheima

Jólaball 2016

Í dag voru litlu jólin hjá okkur í Jötunheimum. Í hádegismat fengum við ofsalega góðan jólamat að borða.

Jólaböllin byrjuðu síðan klukkan 13:15 hjá eldri deildunum og 14:15 hjá yngri deildunum. Á bæði böllin komu fjórir skemmtilegir jólasveinar sem gáfu okkur mandarínur. Hér eru nokkrar myndir frá jólaböllunum.

Rauður dagur og foreldrakaffi 2016

Í dag var rauður dagur í Jötunheimum fóru allir í „rauða“ jólasöngstund í salnum.

Dagurinn endaði síðan á yndislegu foreldrakaffi þar sem við gæddum okkur á smákökum sem börnin höfðu bakað.