Almennar upplýsingar
Ef börn eru veik eiga þau ekki að vera í leikskólanum. Þess vegna biðjum við foreldra um að halda börnunum heima í veikindum. Einnig er nauðsynlegt að hægt sé að ná í einhvern sem getur sótt barnið ef það veikist á leikskólatíma.
Ef um veikindi eða frí er að ræða hjá barni vinsamlegast látið viðkomandi deild vita.
Við bjóðum ekki upp á inniveru barna sem fyrirbyggjandi aðgerð til að koma í veg fyrir veikindi, enda þrífst kvefveiran betur innanhúss en utan. Innivera eftir veikindi er ekki í boði. Þegar barn kemur í leikskólann eftir veikindi á það að vera fullfrískt og í stakk búið að taka þátt í leikskólastarfinu, jafnt úti og inni. Ef sú er ekki raunin þarf barnið að vera lengur heima.
Finnist lús í hári barns er mikilvægt að láta leikskólann vita af því svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir m.a. að senda nafnlausa tilkynningu til foreldra annarra barna um að lús hafi fundist til að hefta útbreiðslu hennar.
Lús
Höfuðlús (e. head louse) er lítið skordýr sem hefur aðlagað sig manninum og lifir sníkjulífi í hárinu á höfðinu. Hún nærist á því að sjúga blóð úr hársverðinum. Höfuðlúsin er ekki talin bera neina sjúkdóma og því skaðlaus manninum. Allir geta smitast en algengast er að börn 3–12 ára fái höfuðlús.
Einkenni
Höfuðlús veldur litlum einkennum en lúsin og egg hennar, nit, geta sést í hári. Einn af hverjum þremur fær kláða. Lúsin leggur egg sín á hárið nálægt hársverðinum og festir það við hárið. Þar sem nitin er föst við hárið færist hún frá hársverðinum þegar hárið vex. Nit sem komin er langt frá hársverði er líklega dauð eða tóm. Algengast er að nitin sé fyrir aftan eyru og neðantil í hnakka.
Smitleiðir
Lúsin fer á milli einstaklinga ef bein snerting verður frá hári til hárs í nægilega langan tíma til að hún geti skriðið á milli en hún getur hvorki stokkið, flogið né synt.
Höfuðlús sem fallið hefur út í umhverfi verður strax löskuð og veikburða og getur þ.a.l. ekki skriðið á annað höfuð og sest þar að. Þess vegna er talið að smit með fatnaði og innanstokksmunum sé afar ólíklegt en ekki er þó hægt að útiloka að greiður, burstar, húfur og þess háttar, sem notað er af fleiri en einum innan stutts tíma, geti hugsanlega borið smit á milli.
Meðferð
Nauðsynlegt er að kemba til að greina lúsasmit. Nota má kembingu sem meðferð við lús. Ef kembt er samviskusamlega á hverjum degi í 14 daga er tryggt að lúsin er farin úr hárinu.
Efni til að drepa höfuðlús fást í lyfjaverslunum og eru af ýmsum gerðum. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda við notkun. Algengt er að meðferðin sé endurtekin eftir um það bil viku.
Margir velja að fara blandaða leið í baráttunni við lúsina. Þá er kembing og lúsadrepandi efni notað samhliða. Byrjað er á að kemba og svo er hárið meðhöndlað með lúsadrepandi efni. Daginn eftir er kembt aftur og síðan annan hvern dag í 14 daga. Efnameðferðin endurtekin samkvæmt leiðbeiningum.
Mikilvægt er að fylgjast vel með hári, einkum barna, þar sem lúsasmit eru algengust hjá þeim. Ráðlagt er að kemba börnum vikulega. Með því móti má koma í veg fyrir að lúsasmit nái fótfestu í hárinu.
Þrif í umhverfi
Ekki er þörf á sérstökum umhverfisþrifum til að ráða niðurlögum lúsasmits. Höfuðlýs í umhverfinu eru til lítils megnugar þegar þær eru ekki í hlýju höfuðhárs og með aðgang að mannsblóði og deyja á 15–20 klst., þ.e.a.s. innan sólarhrings.
Ef talin er þörf á, t.d. þar sem er sameiginleg greiða eða bursti, er rétt að þvo slík áhöld með heitu sápuvatni eða hella yfir þau heitu vatni og láta standa í nokkrar mínútur.
Þessar upplýsingar eru teknar af heilsuvera.is
Nánari upplýsingar má einnig finna á vef landlæknisembættis
Hér má finna myndband um höfuðlús og kembingu - myndband
Finnist njálgur hjá barni er mikilvægt að láta leikskólann vita af því svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir m.a. að senda nafnlausa tilkynningu til foreldra annarra barna til að hefta útbreiðslu hans.
Njálgur (e. pinworm) er lítill, hvítur hringormur sem er algeng sýking hjá fólki á öllum aldri en algengastur hjá börnum og á stofnunum þar sem mörg börn koma saman t.d. leikskólum og skólum og hjá aðstandendum þeirra sem sýkjast.
Einkenni
Njálgssmit er oft einkennalaust (hjá einum af hverjum þremur) en kláði við endaþarm er helsta einkennið. Kláðinn ágerist á nóttunni og getur valdið svefntruflunum. Ef hinn sýkti klórar sér mikið getur húðin orðið rauð og aum og sýkst af bakteríum. Ef njálgssýkingin er mikil þ.e. mjög mikið af ormum, getur hún lýst sér með lystarleysi, kviðverkjum og uppköstum. Önnur einkenni sem komið geta fram eru pirringur, óróleiki, tanngnístur, svefntruflanir og minnkuð matarlyst.
Smitleiðir
Njálgurinn smitast með því að egg komast í munn og þaðan niður í maga. Eggin klekjast í meltingarveginum og ormarnir verpa svo eggjum sínum á svæðið við endaþarminn. Þaðan berast eggin svo með höndum út í umhverfið.
Greining
Þegar grunur er um njálg þarf að ganga úr skugga um að smit sé til staðar.
Ef um barn er að ræða geta foreldrar skoðað svæðið umhverfis endaþarminn með vasaljósi 2–3 klst. eftir að barnið er sofnað. Oft er þá hægt að sjá orma við endaþarmsopið og stundum sjást þeir utan á saur. Eggin er hins vegar ekki hægt að sjá með berum augum.
Fullorðnir geta fylgst með hægðum og sjái þeir hvíta orma utan á hægðum er líklega um njálg að ræða.
Stundum tekst ekki að staðfesta smit með þessum aðferðum en engu að síður getur reynst nauðsynlegt að meðhöndla vegna smits hjá öðrum sem viðkomandi umgengst.
Meðferð
Til að ráða niðurlögum njálgs þarf skerpt hreinlæti og lyfjagjöf. Lyfin eru seld í lausasölu í apótekum og er til sem töflur og mixtúra. Lyfin eru yfirleitt tekin tvisvar þ.e. fyrst einn skammtur og síðan annar skammtur 2 vikum síðar. Allir heimilismeðlimir þurfa að taka lyfið. Þrífa þarf heimilið samhliða til að hreinsa egg úr umhverfinu.
Lyfjagjöf
Til að ráða niðurlögum njálgs þarf lyfjameðferð. Lyfin eru seld í lausasölu í apótekum og er til sem töflur og mixtúra. Lyfin eru yfirleitt tekin tvisvar þ.e. fyrst einn skammtur og síðan annar skammtur 2 vikum síðar.
Hreinlæti
- Handþvottur með vatni og sápu og þurrkun með hreinu handklæði eftir salernisferðir, bleyjuskipti og fyrir meðhöndlun matar er áhrifaríkasta leiðin til að hindra njálgssmit og koma í veg fyrir áframhaldandi smit. Mikilvægt er að kenna börnum að þvo hendur og sjá til þess að þau geri það.
- Hreinsa endaþarmssvæði vel að morgni til dæmis með því að fara í sturtu.
- Hrein nærföt daglega og tíð náttfataskipti
- Skipta á rúmum daginn sem lyfið er tekið. Hrista ekki tauið heldur setja það beint í þvottavél og þvo við meira en 40°C. Æskilegt að þurrka í þurrkara.
- Ekki klóra húð við endaþarm.
- Hafa neglur stuttklipptar og hreinar. Ekki naga neglurnar.
- Gott almennt hreinlæti í umhverfi.
Hvað get ég gert?
Ásamt lyfjameðferð er skerpt hreinlæti nauðsynlegt til að ráða niðurlögum njálgs. Til að rjúfa smitferil njálgsins þarf að tryggja egg berist ekki í munn.
Almennt gott hreinlæti dregur úr líkum á smiti.
- Handþvottur með vatni og sápu og þurrkun með hreinu handklæði eftir salernisferðir, bleiuskipti og fyrir meðhöndlun matar er áhrifaríkasta leiðin til að hindra og koma í veg fyrir áframhaldandi smit. Mikilvægt er að kenna börnum að þvo hendur og sjá til þess að þau geri það.
- Hrein nærföt daglega.
- Halda umhverfi og leikföngum barna þokkalega hreinu.
Þessar upplýsingar eru teknar af heilsuvera.is
Nánari upplýsingar má einnig finna á vef landlæknisembættis
Á afmælisdaginn er afmælisbarnið í sviðsljósinu á deildinni sinni og fær kórónu í tilefni dagsins. Leikskólinn sér um veitingar sem samanstanda af ávöxtum og grænmeti. Afmælissöngurinn er sunginn, fáni er settur á hólf barnsins og tekin er mynd af barninu.
Lyfjagjafir á leikskóla ættu í flestum tilfellum að vera óþarfar, því aðeins í undantekningartilvikum þarf að gefa lyf oftar en 3 svar á dag. Þó lyfið þurfi að gefa þrisvar, þá skiptir ekki máli þótt rúmir 8 tímar líði á milli gjafa.
Undantekning á þessu gætu verið sykursýkis-, asthma- og ofnæmislyf og hugsanlega lyf við ofvirkni. Í slíkum tilvikum er ráðlagt að fá skrifleg fyrirmæli frá lækni til að sýna starfsmönnum leikskólans.
Forráðamönnum er skylt að afhenda deildarstjóra lyfið og þarf hann að kvitta fyrir móttöku þeirra, tegund og magni.
Ekki skal vera nema vikuskammtur af lyfinu í vörslu leikskólans í einu og skal hann geymdur í læstri hirslu.
Við biðjum foreldra um að virða þessar reglur.
Ef slys ber að höndum munum við strax hafa samband við foreldra.
Allir nemendur sem eru í leikskólum Árborgar eru tryggðir meðan á dvöl þeirra stendur.
Þegar leikskóladvöl hefst gera foreldrar dvalarsamning við leikskólann þar sem fram kemur sá dvalartími sem þeir vilja kaupa fyrir barnið sitt.
Í gjaldskrá leikskóla Árborg er heimild fyrir því að innheimta gjald fyrir dvöl umfram umsaminn vistunartíma. Frá og með 1. október 2023 hefst innheimta á þessu gjaldi eftir gjaldskránni og munu foreldrar/forráðamenn þurfa að greiða kr. 1.911 fyrir hverjar byrjaðar 15 mínútur umfram umsaminn vistunartíma. Þetta á við ef að börn mæta fyrir umsaminn vistunartíma eða eru sótt eftir að vistunartíma líkur samkvæmt dvalarsamningi.
Ef foreldrar vilja breyta þessum vistunartíma geta þeir sótt um það á vala.is eða umsokn.vala.is.
Umsókn um breytingu á vistunartíma verður að berast fyrir 15. hvers mánaðar og tekur hún gildi næstu mánaðarmót á eftir. Það sama á við ef segja á upp plássi leikskólabarns.
Við biðjum foreldra um að virða vistunartíma barna sinna.
Gönguferðir eru hluti af leikskólastarfinu í Jötunheimum.
Gönguferðir gefa tækifæri til að kynnast umhverfi leikskólans og njóta þeirra fjölbreyttu nátturu sem finna má í nærumhverfi leikskólans. Börnin öðlast með því virðingu fyrir náttúrunni og kynnast lífríki hennar.
Í gönguferðum má einnig efla úthald barnanna og býður náttúran upp á leiki sem efla styrk, jafnvægi, samhæfingu og félagsfærni þeirra svo eitthvað sé nefnt.
Þegar hópur hefur lagt af stað í gönguferð er ekki í boði að sameinast honum eða hitta hópinn á áfangastað. Þeir nemendur sem eru ekki mættir í leikskólann áður en hópurinn leggur af stað sameinast þeim börnum sem eftir eru, ýmist á sinni deild eða öðrum deildum. Upplýsingar um það eru á töflu deildarinnar.
Mikilvægt er að foreldrar séu meðvitaðir um þessa reglu
Í fataklefnum gefast góð tækifæri til að efla sjálfshjálp barna, það er því nauðsynlegt að gengið sé frá útifötunum í lok dags á þann hátt að barnið geti auðveldlega nálgast útiftötin sín.
Mikilvægt er að setja skófatnað sem eftir er í leikskólanum í skógrindina í hólfinu.
Einnig er æskilegt að foreldrar kíki í þurrkskápinn og geri viðeigandi ráðstafanir með fötin sem eru þar.
Hjálpumst að við að halda fataklefanum okkar hreinum
Þurrkskápurinn er ætlaður fyrir útiföt sem blotna hér í leikskólanum.
Nauðsynlegt er að foreldrar skoði í þurrkskápinn á rigningardögum og athugi hvort eitthvað tilheyri þeirra barni. Ef að fötin eru ekki orðin þurr í þurrkskápnum er æskilegt að fara með þau heim og þurrka fötin þar.
Regnföt, regnvettlingar og stígvél fara ekki í þurrkskápinn.
Foreldrum er ekki heimilt að setja þurrkskápinn í gang