Starfsdagar Jötunheima skólaárið 2019-2020

Hér eru dagsetningar fyrir starfsdaga leikskólans skólaárið 2019-2020

8. ágúst 2019 – Lokað

4. október 2019 – Lokað vegna Haustþings kennara

4. nóvember 2019 – Lokað

3. febrúar 2020 – Lokað

18. mars 2020 – Skóladagur Árborgar

10. júní 2020 – Lokað

Röskun á skólahaldi og íþróttastarfi í Árborg vegna vegna aftakaveðurs

Þar semRíkislögreglustjóri hefur líst yfir óvissustigi á landinu vegna spár um aftakaveður eru íbúar Árborgarar vinsamlegast beðnir um að fylgjast vel með tilkynningum í fjölmiðlum og vera í góðu sambandi við starfsfólk leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila vegna mögulegrar röskunar á starfsemi skólanna þegar líður á daginn. Við reiknum með að skólahald grunnskóla geti verið með eðlilegum hætti í dag og kennslu verði lokið áður en veður tekur að versna. Til að gæta fyllsta öryggis lokum við leikskólum, íþróttahúsum, frístundaheimilum og útisvæði Sundhallar Selfoss kl. 15:00 í dag og eru foreldrar og forráðamenn barna beðnir um að sækja börn sín til að tryggt sé að börn, foreldrar og starfsfólk, geti náð heim til sín áður en versta veðrið skellur á.

Sjá spá fyrir Suðurland á vedur.is https://www.vedur.is/vidvaranir/svaedi/sudurland

Allar frekari ákvarðanir í Árborg verða teknar í samráði við lögreglustjóra og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands. Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað. Fylgist með frekari upplýsingum frá almannavörnum, á Facebook https://www.facebook.com/Almannavarnir/ um veðurspá á www.vedur.is, færð á vegum www.vegagerdin.is 

Sumarfrí 2019

Sumarfrí leikskólans er frá 4. júlí -7. ágúst 2019. Starfsdagur kennara verður fimmtudaginn 8.ágúst  og opnum við því föstudaginn 9. ágúst 2019. Hér er tengill að læsisdagatali Menntamálastofnunar sem er skemmtileg leið til að halda börnum að bókum og hvetja til lestrar í sumarfríinu https://mms.is/sites/mms.is/files/sumarlaesisdagatal2019_loka.pdf  og hér er óútfyllt læsisdagatal https://mms.is/sites/mms.is/files/sumarlestur_isl_notext_2019.pdf

Hafið það sem allra best.

Kveðja, starfsfólk Jötunheima

Gönguhópurinn Gustur – Fimmvörðuháls 15.júní 2019

Leikskólinn Jötunheimar er eins og margir vita Heilsueflandi leikskóli.  Starfsfólkið verður sífellt meðvitaðra um mikilvægi þess að rækta líkama og sál og einn liður í því er stofnun gönguhóps.  Hópurinn heitir Gustur og hefur verið duglegur að fara í göngur bæði innan sveitarfélagsins sem utan.

Hér eru dæmi um nokkrar göngur: Heilsustígurinn í Hveragerði, Laugardælahringurinn, Reykjadalurinn, Kögunarhóll, Silfurbergið, Gömlu kambarnir.

Þann 15.júní s.l. fór gönguhópurinn Gustur í  göngu yfir Fimmvörðuháls.  Leiðin liggur á milli tveggja jökla, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls og tengir Skóga við Þórsmörk.  Hópurinn fékk hið fullkomna gönguveður, skýjað, milt og gott útsýni.  Einnig var gengið upp á Magna og Móða sem mynduðust í eldgosinu vorið 2010.  Ferðin gekk vel og nutu ferðalangarnir dagsins í magnaðri náttúru.

Leikskólinn Jötunheimar auglýsir eftir aðstoðarleikskólastjóra

Leikskólinn Jötunheimar auglýsir eftir aðstoðarleikskólastjóra frá og með 1. júní 2019 eða eftir nánara samkomulagi.

Helstu verkefni 

 • Vinnur ásamt leikskólastjóra að daglegri stjórnun og rekstri leikskólans sem og skipulagningu uppeldisstarfsins.  
 • Er staðgengill í fjarveru leikskólastjóra og starfar þá samkvæmt starfslýsingu hans. 
 • Er faglegur leiðtogi og ber að kynna sér nýjungar í starfi og miðla þekkingu til starfsmanna.  
 • Skipuleggur og ber ábyrgð á að undirbúningstímar starfsmanna séu notaðir til skipulags á leikskólastarfinu.  
 • Starfar samkvæmt stefnumörkun leikskólans sem tekur meðal annars mið af menntastefnu Sveitarfélagsins Árborgar, aðalnámskrá leikskóla, lögum og reglugerðum um leikskóla og öðrum lögum er við eiga.  
 • Sinnir þeim verkefnum er varða stjórnun og uppeldi og menntun leikskólabarna sem yfirmaður felur honum. 

Kröfur um menntun, kunnáttu, reynslu og/eða hæfni 

 • Leyfisbréf leikskólakennara. 
 • Reynsla, hæfni og áhugi í starfi með börnum.  
 • Reynsla og/eða menntun í stjórnun æskileg. 
 • Góð færni í mannlegum samskiptum.  
 • Jákvæðni, frumkvæði, áhugasemi og góður samstarfsvilji. 
 • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð. 
 • Færni til að tjá sig í ræðu og riti.  
 • Góð íslenskukunnátta. 
 • Góð tölvukunnátta.  

Frekari upplýsingar veitir Júlíana Tyrfingsdóttir, leikskólastjóri, sími:  480-6372. Netfang: julianat@arborg.is

Smelltu hér til að sækja um starfið eða á www.arborg.is

Umsóknarfrestur er til 12. apríl 2019. Störfin henta jafnt konum sem körlum. Laun fara eftir kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og viðeigandi stéttarfélags.

Hægt er að kynna sér leikskólastarfið á heimasíðu Jötunheima:  https://jotunheimar.arborg.is/

112 dagurinn

Í dag, 11.2 er 112 dagurinn haldinn hátíðlegur um allt land og hjá okkur í Jötunheimum.

Við á eldri deildunum heimsóttum Brunavarnir Árnessýslu. Þar fengum við stutta kynningu á starfsemi slökkviliðsins auk umræðu um neyðarnúmerið 112, eldvarnir heimilisins og mikilvægi reykskynjara. Að því loknu skoðuðum við okkur um í bílasalnum en auk Brunavarna Árnessýslu voru Sjúkraflutningar HSu og Lögreglan á Suðurlandi með bíla sína til sýnis. 
Við vorum hæstánægð með heimsóknina og erum fróðari um öryggismál.

Eftir hádegi heimsóttu Brunavarnir Árnessýslu, Sjúkraflutningar HSU og Lögreglan okkur á yngri deildum og voru með samskonar fræðslu og f.h.

Við þetta tækifæri afhenti Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, leikskólanum viðurkenningu fyrir framúrskarandi vinnu við öryggis- og viðbragðsmál innan leikskólans. Leikskólinn hefur að undanförnu unnið í öryggismálum sínum, m.a. með uppfærðri rýmingaráætlun, rýmingaræfingum og útbúið sérstakar rýmingartöskur sem hanga í neyðarútgöngum hverrar deildar.

Þess má geta að hugleiðingin varðandi hvort börn geti hringt úr snjallsímum í 112 kom frá starfsfólki Jötunheima. Sú hugleiðing var birt á facebook-síðu Brunavarna Árnessýslu eftir fyrirspurn frá leikskólanum og hefur fengið mestan lestur allra innleggja sem BÁ hefur sett inn á síðuna sína, en tæplega 41 þúsund manns hafa lesið færsluna.

Við þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Dagur leikskólans

Komið öll blessuð og sæl

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins miðvikudaginn 6. febrúar. Þetta er í tólfta skipti sem haldið er upp á daginn en 6. febrúar er merkilegur dagur í leikskólasögu þjóðarinnar því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.

Tilgangur Dags leikskólans er að vekja athygli á hlutverki leikskóla og starfi leikskólakennara. 

Kennarasamband Íslands efndi til ritlistarkeppni, Að yrkja á íslensku, meðal leikskólabarna í tilefni dagsins. Verkefnið var að yrkja á íslensku; á hvaða formi sem er (ljóð, vísur, sögur o.s.frv.) og efnistök voru frjáls. Samkeppnin var liður í vitundarvakningu sem KÍ hratt af stað á Alþjóðadegi kennara í haust. Þá var ákveðið að setja móðurmálið í forgang og vinna að verndun og eflingu þess. Vel á annað hundrað ljóð, textar og sögur bárust frá leikskólabörnum og veitt voru þrenn verðlaun í keppninni.

Bjarkey Sigurðardóttir, nemandi á Sunnuhvoli, sendi inn ljóðið Sumar sem hún samdi og hlaut hún verðlaun fyrir það í ritlistarkeppninni. Við óskum henni innilega til hamingju.

Hér að neðan má sjá frétt af heimasíðu KÍ. 

Að yrkja á íslensku – sólblítt sumar og snakk

Bjarkey Sigurðardóttir, nemandi í leikskólanum Jötunheimum á Selfossi, bar sigur úr býtum í ritlistarsamkeppninni Að yrkja á íslensku sem Kennarasambandið efndi til í tilefni Dags leikskólans. Bjarkey tók við viðurkenningu úr hendi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á samkomu í leikskólanum Brákarborg í Reykjavík í morgun. Verðlaunaljóð Bjarkeyjar ber titilinn Sumar.


Sumar
Sumar er sólblítt,
gaman er þá.
Að dansa í sumarkjólnum
og borða snakk. 
 

Umsögn dómnefndar: Haglega samið ljóð í ætt við ferskeytlu að formi og fjallar um þá tilfinningu þegar sumarið hellist yfir mann af fullum þunga. Orðið „sólblítt“ er ljóðrænt og sérstaklega skemmtilegt og bendir til myndrænnar og skapandi hugsunar ljóðskáldsins.

Bjarkey Sigurðardóttir og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Lokað á aðfangadag

Leikskólar Árborgar verða lokaðir á aðfangadag, 24. desember 2018.

Gjaldskrárbreytingar 1.janúar 2019

Kæru foreldrar/forráðamenn

Á 7. fundi bæjarstjórnar, 12. desember 2018, var samþykkt að hækka gjaldskrá fyrir leikskóla í Árborg 2019 um 3,6% frá og með 1. janúar 2019. Gjaldskráin verður aðgengileg á heimasíðu Árborgar, heimasíðu leikskólans og í forstofum leikskólans um áramót.

Við viljum einnig minna á að ef foreldrar/forráðamenn óski eftir að breyta dvalartíma og eða/kaupum á mat/hressingu verða þeir að tilkynna það viðkomandi leikskólastjóra eigi síðar en 15. hvers mánaðar. Breyting á gjaldtöku tekur þá gildi næstu mánaðamót á eftir.

Kveðja leikskólastjóri.

Kvennafrí 24. október 2018 kl.14:55

Kæru foreldrar og fjölskyldur

Jötunheimar verða lokaðir miðvikudaginn

24. október 2018 frá kl. 14:55.

Hér fyrir neðan eru frekari upplýsingar.

 

KVENNAFRÍ 2018 – KVENNAVERKFALL

Miðvikudaginn 24. október 2018, eru konur hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55, mæta á samstöðufundi og/eða taka þátt á táknræna hátt í samstöðu undir kjörorðinu: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!

Á vef viðburðarins, www.kvennafri.is, segir meðal annars:

„ Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047 – eftir 29 ár! Eftir því getum við ómögulega beðið!

Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn 24. október árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um land allt niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Þær vildu mótmæla og vekja athygli á launamisrétti, vanmati á störfum kvenna, skorti á virðingu og valdaleysi kvenna. Hjól atvinnulífsins og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag. Fundurinn vakti athygli um allan heim og sýndi að samstaðan er sterkasta vopnið.

Síðan hafa konur komið saman og krafist kjarajafnréttis og samfélags án ofbeldis fjórum sinnum ­– árin 1985, 2005, 2010 og 2016 – en betur má ef duga skal: Þótt Ísland eigi að heita paradís fyrir konur í alþjóðlegu samhengi er ljóst að víða er pottur brotinn. Enn er langt í land með að ná jöfnum launum og jöfnum kjörum. Enn verða konur fyrir kynbundnu ofbeldi og áreitni á vinnustöðum sem og heima fyrir, eins og #MeToo bylgja síðasta vetrar minnti okkur öll harkalega á. Enn eru kvennastörf minna metin þegar kemur að launum, réttindum og virðingu í samfélaginu.

Nú reynir á samstöðumátt kvenna en ekki síður á samfélagið sjálft sem loksins, loksins hlýtur að geta sameinast um að breyta þessu. Hættum að breyta konum – breytum samfélaginu – til hins betra!“

Kennarasamband Íslands hvetur sveitarfélög til að sýna konum stuðning í

baráttunni með því að sýna samstöðu.

 

Að baráttufundi á Arnarhóli á kvennafríi 24. október 2018 standa eftirfarandi samtök kvenna og launafólks:

Aflið, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag kvenna í Reykjavík, BSRB, Delta Kappa Gamma – félag kvenna í fræðslustörfum, Druslubækur og doðrantar, Efling, Femínísk fjármál, Femínistafélag Háskóla Íslands, FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu, Félag um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, IceFemIn – Icelandic Feminist Initiative, Jafnréttisfélag Háskólans í Reykjavík, Kennarasamband Íslands, Knúz.is, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennakirkjan, Kvennahreyfing ÖBÍ, Kvennaráðgjöfin, Kvennasögusafn Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, MFÍK, Rótin, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtök um kvennaathvarf, Samtökin ’78, Soroptimistasamband Íslands, Stelpur rokka!, Stígamót, Ungar athafnakonur, UN Women, VR, WIFT – Konur í kvikmyndum og sjónvarpi, W.O.M.E.N. in Iceland – Samtök kvenna af erlendum uppruna, Zontasamband Íslands.

Kærar kveðjur

Stjórnendur Jötunheima

10 ára afmæli Jötunheima

Laugardaginn 8. september fagnar leikskólinn Jötunheimar 10 ára afmæli sínu.

Í tilefni þess var opið hús í leikskólanum föstudaginn 7. september frá klukkan 9.00-11:00 og 13:00-15:30.

Börnin tóku virkan þátt í að undirbúa afmæli leikskólans meðal annars með því að túlka upplifun sína í máli og myndum.

Kóróna leikskólans

Foreldrafélagið gaf okkur þessa flottu kubba og þökkum við þeim kærlega fyrir.

Við þökkum kærlega fyrir þær gjafir sem okkur bárust.  Margt var um manninn og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.

Kveðja, starfsfólk Jötunheima