Hugmyndafræðin

Kjörorð Jötunheima:  Leikurinn á vísdóm veit

 Daglegt líf í Jötunheimum snýst um leik, verkefni og samskipti sem gefa börnum tækifæri til að læra á eigin forsendum og þróa með sér vináttu, skapandi hugsun og gleði.

Í leikskólanum viljum við að börn læri að:

 • bera virðingu fyrir sjálfum sér, öðru fólki, umhverfi sínu og öllum lifandi verum,
 • vera skapandi einstaklingar sem blómstra í samfélagi við aðra,
 • njóta hreyfingar úti og inni og neyta hollrar fæðu,
 • leika sér með efnivið sem er skapandi og fræðandi,
 • nema í gegnum leikinn,
 • styrkja vináttuböndin.

Hlutverk starfsfólks er að:

 • stuðla að góðri samvinnu við foreldra,
 • kenna börnum lýðræðisleg vinnubrögð,
 • vera tilbúið að mæta hverjum einstaklingi þar sem hann er staddur,
 • bjóða upp á fjölbreyttan efnivið til skapandi starfs,
 • stuðla að vellíðan barna í leikskólanum,
 • efla félagsfærni og sjálfstæði barna,
 • búa börnum kærleiksríkt umhverfi í leikskólanum.

Leikur og nám

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og mikilvægasta náms- og þroskaleið barna. Sjálfsprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barns. Hann er æðstur allra leikja og gleðigjafi. Til þess að glæða leikinn lífi þarf  barnið að búa að fjölbreyttri upplifun úr náttúru, umhverfi og samskiptum.  Af þeirri reynslu skapast þekking, athafnir, leikni og nýjar tilfinningar. Í leiknum læra börn að umgangast hvert annað af virðingu og fá bæði notið hvíldar og útrásar.

Leikurinn er kennsluaðferð kennarans.  Með því að virða leikinn, skoða hann, þekkja og vera þátttakandi í honum fær kennari góða mynd af getu og þroska hvers barns, stöðu þess í  barnahópnum og samskiptum barnanna.  Reynsla og þekking kennara gerir honum kleift að lesa tilfinningar og líðan barns með því að fylgjast með leik þess.

Hlutverk kennara er að hlúa vel að samskiptum barna og kennara og samskiptum barnanna innbyrðis. Kennarar eru meðvitaðir um gildi leiksins og mikilvægi þess að vera til staðar ef á þarf að halda, til að styðja leikinn eða grípa inn í ef þörf krefur.

Í Jötunheimum miðast allt starf leikskólans við leikinn og mikilvægi hans.  Samfelldur tími fyrir leik er mikilvægur og dagskipulag miðast við það.

Leikur og sköpun

Sjónrænt uppeldi og áhersla á tilfinningar og tjáningu barnanna er stór þáttur í leikskólauppeldi barna. Það hvetur til skapandi og virkrar hugsunar og eykur sjálfstæði barnanna og trú á þeirra eigin getu. Forsenda lýðræðis er samábyrgð og þátttaka einstaklinga sem gerir þá færa um að móta samfélag sitt og hafa áhrif. Flétta á lýðræði og jafnrétti inn í alla námsþætti Jötunheima.

Leikskólinn er fyrir öll börn með ólíkar þarfir og getu. Taka þarf tillit til mismunandi þroska og reynslu einstaklingsins og að hvert barn fái viðfangsefni við sitt hæfi og geti notið sín á eigin forsendum. Börn með fötlun eða frávik í þroska fá sérkennslu samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur þar um. Börn með sérþarfir læra best í leik og starfi með öðrum börnum og megináhersla er lögð á að sérkennslan fari fram í litlum hópi þar sem barnið getur notið sín í félagslegum samskiptum

Leikur og heilbrigði

Heilbrigði er andleg, félagsleg og líkamleg vellíðan. Heilbrigð samskipti einkennast af gagnkvæmri virðingu. Lykilatriði í hreyfiuppeldi barna er að þau læri í gegnum leik og þess vegna þarf góð hreyfistund að einkennast bæði af skipulögðum og frjálsum leik. Í Jötunheimum er lögð áhersla á að barnið fái markvissa alhliða hreyfingu. Hreyfing er mikilvæg jafnt úti sem inni og börnin hafa ríka þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Hreyfing leysir úr læðingi sköpunarkraft og framkallar gleði, vellíðan og sterka sjálfsmynd. Öll börn fara út einu sinni á dag en þau sem vilja fara aftur út hafa kost á því.

Lögð er áhersla á að matur sé unninn að mestu frá grunni. Eftir hádegismat fara öll börn á yngri deildum í hvíld eftir aldri og þörfum. Eldri börnin taka þátt í samverustundum þar sem áhersla er lögð á lestur.

Leikur og læsi

Í kjölfar þróunarverkefnis sem leikskólinn tók þátt í með öllum leikskólum Árborgar munum við halda áfram að þróa læsi í skólastarfinu okkar.