Heilsueflandi leikskóli

Heilsueflandi

Heilsueflandi leikskóla á vegum Embættis landlæknis er ætlað að styðja leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana að hluta af daglegu starfi leikskólans.

Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 eru heilbrigði og velferð skilgreind sem einn af sex grunnþáttum menntunar sem leikskólar eiga að hafa að leiðarljósi og innleiða í öllu sínu starfi.

Mikill samhljómur er með starfi Heilsueflandi leikskóla og grunnþættinum um heilbrigði og velferð. Heilsueflandi leikskóli mun því nýtast leikskólum sem verkfæri til að innleiða grunnþáttinn heilbrigði og velferð.

Lykilþættir skólastarfsins

14355630_657132317786507_8019651571214936427_n

Heilsueflandi leikskóli leggur sérstaka áherslu á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk.

Heilsustefna Jötunheima

Leikskólinn Jötunheimar er heilsueflandi leikskóli. Markmið skólans er að stuðla að bættri heilsu og líðan allra þeirra sem í skólanum starfa, hafa heilsuhvetjandi áhrif á umhverfi sitt og skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum.  Til að þetta markmið náist verður lögð áhersla á samvinnu milli stjórnenda, starfsfólks, nemenda, aðstandenda og annarra sem að leikskólasamfélaginu koma svo sem nærsamfélag. Jafnframt verður lögð áhersla á að hvetja til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um gildi bættrar heilsu og að hafa jákvæð áhrif á daglegar venjur og starf í skólanum.