Almennar upplýsingar
Ef börn eru veik eiga þau ekki að vera í leikskólanum. Þess vegna biðjum við foreldra um að halda börnunum heima í veikindum. Einnig er nauðsynlegt að hægt sé að ná í einhvern sem getur sótt barnið ef það veikist á leikskólatíma.
Ef um veikindi eða frí er að ræða hjá barni vinsamlegast látið viðkomandi deild vita.
Við bjóðum ekki upp á inniveru barna sem fyrirbyggjandi aðgerð til að koma í veg fyrir veikindi, enda þrífst kvefveiran betur innanhúss en utan. Innivera eftir veikindi er ekki í boði. Þegar barn kemur í leikskólann eftir veikindi á það að vera fullfrískt og í stakk búið að taka þátt í leikskólastarfinu, jafnt úti og inni. Ef sú er ekki raunin þarf barnið að vera lengur heima.
Á afmælisdaginn er afmælisbarnið í sviðsljósinu á deildinni sinni og fær kórónu í tilefni dagsins. Leikskólinn sér um veitingar sem samanstanda af ávöxtum og grænmeti. Afmælissöngurinn er sunginn, fáni er settur á hólf barnsins og tekin er mynd af barninu.
Lyfjagjafir á leikskóla ættu í flestum tilfellum að vera óþarfar, því aðeins í undantekningartilvikum þarf að gefa lyf oftar en 3 svar á dag. Þó lyfið þurfi að gefa þrisvar, þá skiptir ekki máli þótt rúmir 8 tímar líði á milli gjafa.
Undantekning á þessu gætu verið sykursýkis-, asthma- og ofnæmislyf og hugsanlega lyf við ofvirkni. Í slíkum tilvikum er ráðlagt að fá skrifleg fyrirmæli frá lækni til að sýna starfsmönnum leikskólans.
Forráðamönnum er skylt að afhenda deildarstjóra lyfið og þarf hann að kvitta fyrir móttöku þeirra, tegund og magni.
Ekki skal vera nema vikuskammtur af lyfinu í vörslu leikskólans í einu og skal hann geymdur í læstri hirslu.
Við biðjum foreldra um að virða þessar reglur.
Ef slys ber að höndum munum við strax hafa samband við foreldra.
Allir nemendur sem eru í leikskólum Árborgar eru tryggðir meðan á dvöl þeirra stendur.
Þegar leikskóladvöl hefst gera foreldrar dvalarsamning við leikskólann þar sem fram kemur sá dvalartími sem þeir vilja kaupa fyrir barnið sitt.
Ef foreldrar vilja breyta þessum vistunartíma geta þeir sótt um það á vala.is eða umsokn.vala.is.
Umsókn um breytingu á vistunartíma verður að berast fyrir 15. hvers mánaðar og tekur hún gildi næstu mánaðarmót á eftir. Það sama á við ef segja á upp plássi leikskólabarns.
Við biðjum foreldra um að virða vistunartíma barna sinna.