Foreldraráð Jötunheima
Foreldraráð 2021-2022
Formaður
Guðný Guðjónsdóttir
Ritari
Kristbjörg Sigtryggsdóttir
Meðstjórnandi
Kristín Björk Guðmundsdóttir
Hlutverk foreldraráðs:
- Fjallar um og gefur umsögn til leikskólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið.
- Fylgist með framkvæmd áætlana og að þær séu kynntar foreldrum.
- Kemur á framfæri sjónarmiðum og hugmyndum foreldra til skólastjórnenda og skólanefndar.
- Starfar með skólastjóra að hagsmunum barnanna og leikskólans.
Verkefni foreldraráðs:
- Fulltrúi situr skólanefndarfundi og kemur þar sjónarmiðum foreldra á framfæri auk þess að leggja fram tillögur ef við á.
- Situr fundi með foreldrafélögum og skólastjórnendum um skólastarfið og áætlanir því tengdu.
- Fer yfir skólanámskrá og aðrar áætlanir skólans og útbýr umsagnir um þær.
- Taka þátt í ýmsum verkefnum á vegum skólanefndar sem fulltrúar foreldra.
- Taka þátt í samstarfi foreldraráða og -félaga um sameiginlega hagsmuni nemenda í svæðinu.
- Taka þátt í landssamtökum foreldra.
1. grein
Reglur þessar gilda um starfsemi foreldraráðs og samskipti þess við skólastjóra, foreldrafélag, fræðslunefnd, skólaskrifstofu og landssamtök foreldra. Þær öðlast gildi við undirskrift þar til bærra fulltrúa í foreldraráði. Skólastjóri sér um að starfsreglur foreldraráðs séu kynntar foreldrum, m.a. með með birtingu í skólanámskrá og á upplýsingavef skólans. Foreldraráð hefur svæði á heimasíðu skólans til að kynna starfsemi sína og einnig hefur foreldraráðið eigið netfang. Á heimasíðunni skulu einnig koma fram nöfn og netföng fulltrúa í foreldraráði.
2. grein
Foreldraráð starfar skv. ákvæðum 11. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008. Í foreldraráði eiga sæti a.m.k. 3 fulltrúar og er óskað eftir þeim á kynningarfundum hverrar deildar sem haldnir eru að hausti. Á sameiginlegum aðalfundi foreldrafélags og foreldraráðs er farið yfir starfsemi ráðsins á liðnu starfsári.
3.grein
Í upphafi skólaárs skal foreldraráð setja sér starfsáætlun og birta hana á heimasíðu skólans. Einnig gerir það í samvinnu við skólastjóra áætlun um sameiginlega fundi á skólaárinu. Á sameiginlegum fundi skólastjóra, foreldraráðs og fulltrúa foreldrafélags sem haldinn er í október ár hvert, veitir skólastjóri upplýsingar varðandi starfsemina og skólahald almennt, breytingar á henni og þróun. Foreldraráð afhendir skólastjóra afrit af erindum og umsögnum er varða skólann og skólahald, þegar þær eru sendar öðrum aðilum. Foreldraráð fær aðstöðu og nauðsynlegan aðgang að skólahúsnæðinu, búnaði og skrifstofuþjónustu, s.s prentun, ljósritun og póstdreifingu eftir því sem frekast er unnt.
4. grein
Þegar skóalnámskrá er endurskoðuð getur foreldraráð, ef þurfa þykir, boðað skólastjóra og aðra starfsmenn skólans til fundar þar sem farið er yfir námskrána, hún skýrð nánar og foreldraráði gefinn kostur á að bera upp fyrirspurnir. Foreldraráð gefur skriflega umsögn um skólanámskrá og skal hún send skólastjóra, fræðslunefnd og stjór foreldrafélags eigi síðar en 30 dögum eftir að það fær hana til umsagnar. Með umsögn sinni og athugasemdum getur foreldraráðið sett fram tillögur um breytingar á skólahaldi og rekstri skólans og óskað eftir að þær verði teknar til umfjöllunar og afgreiðslu.
5. grein
Foreldraráð stuðlar að því að skólanámskrá og umsagnir um hana séu birtar á heimasíðu skólans . Foreldraráðið fylgist með að áætlunum skólanámskrár sé framfylgt.
6. grein
Foreldraráð starfar í náinni samvinnu við foreldrafélag skólans og leitast við að tryggja gagnkvæma miðlun upplýsinga. Dagskrár og fundargerðir hvors aðila skulu sendar hinum. Ef gefið er út fréttabréf á vegum foreldrafélags er æskilegt að foreldraráði sé gefinn kostur á að fá birtar upplýsingar um starfsemi ráðsins reglulega í fréttabréfinu.
7. grein
Fulltrúar í foreldraráði velja sér formann og skipta með sér verkum (formaður- varaformaður- ritari) á fyrsta fundi ráðsins að hausti og leggja drög að starfsáætlun fyrir næsta skólaár. Skólastjóri undirbýr fundi og boðar til þeirra með dagskrá.
8. grein
Foreldraráð heldur fundargerðarbók. Fundargerðir skulu sendar skólastjórnendum, foreldrafélagi og þá skulu þær birtar á heimasíðu skólans. Ritari ber ábyrgð á að senda fundargerðir á samstarfsaðila og að þær séu birtar á heimasíðu skólans.
9. grein
Ef foreldrar eru ósáttir eða hafa athugasemdir um skólahaldið geta þeir komið athugasemdum til foreldraráðs ef aðrar leiðir eru ófærar. Foreldraráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólks skólans.
10. grein
Foreldraráðsfulltrúum er skylt að gæta trúnaðar varðandi upplýsingar um einstaklinga, nemendur, kennara eða aðra sem þeir verða áskynja um í starfi sínu. Æskilegt er að foreldraráðsfulltrúar skrifi undir þagnareið.
11. grein
Sé lögum og reglum um leikskóla eða áætlunum um skólahald ekki framfylgt að mati foreldraráðs ber því að tilkynna það til menntamálaráðuneytisins enda hafi ábendingum skólatjóra og/eða fræðslunefndar ekki verið sinnt.
Samþykkt á fundi foreldraráðs 20.maí 2015
September
- Starfsáætlun og skóladagatal leikskólans.
- Stefna skólans um samstarf heimila og skóla og upplýsingaflæði.
- Skoða skólahúsnæði, tækjakost, bókasafn og annan búnað.
- Skoða aðkomuleiðir að skólanum.
- Huga að eftirliti með leiktækjum á skólalóð.
- Annað
Janúar
- Mötuneyti og matseðlar
- Áætlanir skólans (áfalla, bruna, inflúensu...)
- Fjárhagsáætlun og framkvæmdaáætlun.
- Annað
Maí
- Starfsskýrsla leikskólanns.
- Mat á skólastarfi og umbótaráætlun.
- Starfsáætlun og skóladagatal næsta skólaárs.
- Annað
Foreldraráð talar við og hlustar eftir röddum foreldra, kennara og annarra starfsmanna og kemur með tillögur til úrbóta um það sem betur má fara ef þörf krefur.
Fundur foreldraráðs Jötunheima mánudaginn 14. nóvember 2022, kl. 10:00
Mættar í fjarfundi og/eða á skrifstofu leikskólastjóra: Eydís Harpa, Guðný, Helga Mjöll, Sólveig og Júlíana leikskólastjóri.
Sólveig ritar fundargerð.
Fundarefni:
- Meðlimir foreldraráðs skipta með sér verkum.
Guðný er formaður, Sólveig er ritari og Eydís Harpa og Helga Mjöll meðstjórnendur.
- Þagnarskylda
Leikskólastjóri brýnir fyrir meðlimum foreldraráðs þagnarskyldu sem ríkir um störf ráðsins og strengja meðlimir drengskaparheit þess efnis.
- Fundaráætlun vetrarins
Áformað er að ráðið fundi fjórum sinnum í vetur. Næstu fundir eru áætlaðir mánudagana 5. desember nk., 6. febrúar nk. og 3. apríl nk. (mögulega endurskoðað vegna páskafrís).
- Starfsáætlun
Starfsáætlun er lögð fyrir fundinn til samþykktar. Fundarmenn samþykkja starfsáætlun einróma.
- Þróunarverkefni næsta skólaárs
Leikskólastjóri kynnir þróunarverkefni sem fyrirhugað er að vinna í samráði við háskólann og aðra leikskóla sveitarfélagsins. Verkefnið er sprottið út frá hugmyndum leikskólastjóra um mat barna á skólastarfi og rímar vel við nýja löggjöf um farsæld barna. Markmiðið er að þróa fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barna í leikskólum Árborgar. Tilgangur er að innleiða færsældarlögin í leikskólastarf í samræmi við leiðarljós og hugmyndafræði leikskólanna og lifandi lærdómssamfélags innan þeirra. Jafnframt byggir verkefnið á því hvernig börn geti verið þátttakendur í að skapa eigin farsæld og tekið þátt í þróun skólastarfsins og mat á því. Til stendur að sækja um styrk úr Sprotasjóði vegna verkefnisins.
- Fyrirhuguð fjölgun leikskóladeilda á Jötunheimum
Leikskólastjóri kynnir fyrirhugaða fjölgun deilda á leikskólanum. Annars vegar tvær til fjórar deildir sem stefnt er á að opna á vormánuðum og staðsettar verða, til bráðabirgða, á lóð Stekkjaskóla. Hins vegar fyrirhugaða stækkun leikskólans með viðbyggingu til vesturs af núverandi húsnæði skólans og áætlað er að verði mögulega tilbúið eftir fimm ár. Upplýsti leikskólastjóri að hún hefði verið boðuð á fund vegna hönnunar viðbyggingarinnar og muni upplýsa um framgöngu þess á næstu fundum.
- Önnur mál
Leikskólastjóri kynnti hvað gert yrði á starfsdegi leikskólans þann 25. nóvember nk., og tengsl þess við framangreint þróunarverkefni.
Næsti fundur er, sem fyrr segir, áætlaður 5. desember nk.
Fundi slitið 10.35
Fundur foreldraráðs Jötunheima mánudaginn 2. maí 2022, kl. 10:00
Mættar í fjarfundi og/eða á skrifstofu aðstoðarleikskólastjóra: Eydís Harpa, Guðný, Helga Mjöll, Sólveig, Ingunn aðstoðarleikskólastjóri og Júlíana leikskólastjóri.
Sólveig ritar fundargerð.
Fundarefni:
1. Logo leikskólans – Leikskólastjóra kynnir að lógóið sé tilbúin og útgefið. Mikil ánægja er með nýja merkið sem og hvernig staðið var að vali þess.
2. Heilsuhringur Jötunheima – Leikskólastjóri kynnir stöðu verkefnisins sem er í góðum ferli og á lokametrunum. Skerpa þarf á þrautabraut á skólalóð. Í kjölfarið mun birtast grein um verkefnið og það kynnt.
3. Mat á skólastarfi og umbótaáætlun
a. Leikskólastjóri kynnir niðurstöður úr starfsmannakönnun, sem voru almennt góðar. Niðurstöðurnar lýsa almennri starfsánægju starfsmanna leikskólans sem og ánægju með stjórnun og starfsaðstöðu. Leikskólastjóri kveður stjórnendur eiga eftir að rýna betur í niðurstöður könnunarinnar, en einhverrar óánægju bar varðandi „undirbúning“, sem sé þó kjarasamningsbundið atriði sem þurfi mögulega að tækla á öðrum vettvangi.
b. Leikskólastjóri kveður umbótaáætlun ekki tilbúna en unnið verði að henni komandi föstudag (sem er starfsdagur á leikskólanum).
4. Starfsáætlun næsta skólaárs – Leikskólastjóri kveður vinnu að nýrri starfsáætlun muna hefjast þegar búið verður að gera upp líðandi starfsárs. Þá verða gerð drög að nýrri starfsáætlun sem lögð verður til samþykkis á haustmánuðum.
5. Skólanámskrá Jötunheima – Lokasamþykki – Fundarmenn er mjög ánægðir með skólanámskránna, fannst hún skýr og hnitmiðuð. Ákveðið var að halda inni upplýsingum um Völu-appið. Skólanámskráin var samþykkt.
6. Önnur mál
a. Rætt var um störf foreldraráðsins. Fundarmenn kváðust ánægðir með fundartíma og fjölda funda. Talið var hæfilegt að halda tvo fundi fyrir áramót og tvo eftir áramót. Allir meðlimir ráðsins kváðust reiðubúnir til að halda áfram í ráðinu á næsta skólaári.
b. Leikskólastjóri kynnti þátttöku starfsmanna leikskólans í Styrktarleikunum síðastliðna helgi. Mikil ánægja var með þátttökuna.
Boðað verður til næsta fundar á nýju skólaári.
Fundi slitið 10.23
Fundur foreldraráðs Jötunheima mánudaginn 7. mars 2022, kl. 10:00
Mættar í fjarfundi og/eða á skrifstofu leikskólastjóra: Eydís Harpa, Guðný, Sólveig og Júlíana leikskólastjóri.
Sólveig ritar fundargerð.
Fundarefni:
- Logo leikskólans – Leikskólastjóra kynnir stöðu á vinnu að nýju einkennismerki leikskólans og upplýsir um að henni sé lokið. Mikil ánægja er með nýja merkið og val þess.
- Áætlanir skólans – Leikskólastjóri kynnir stöðu áætlana
- Áfalla- og slysaáætlun – Endurskoðun áætluð í vor.
- Bruna- og rýmingaráætlun – Yfirfarin í vetur.
- Leikskólastjóra kynnir einnig vinnu við nýja áætlun hjá almannavarnarhópi innan Árborgar, sem vinnur að nýrri allsherjaráætlun fyrir stofnanir sveitarfélagsins.
-
- Jafnréttisáætlun Jötunheima – Komið er að endurnýjun. Bíður erindis Jafnréttisstofu.
- Skóladagatal 2022-2023 er lagt fyrir fundarmenn og samþykkt.
- Skólanámskrá Jötunheima 2022-2027 er lögð fyrir fundarmenn og bíður staðfestingar á næsta fundi.
- Framkvæmdaráætlun – Leikskólastjóri kynnir þær framkvæmdir sem óskað hefur verið eftir, t.a.m. á palli við suðurhlið leikskólans og girðingu við tré, sem og mögulega endurhönnun lóðar að teknu tilliti til þarfa ungbarna.
- Menntastefna Árborgar - 2018-2022 – Endurskoðun væntanleg í haust.
Næsti fundur er ákveðinn 2. maí nk., kl. 10.00.
Fundi slitið 10.30
Fundur foreldraráðs Jötunheima 3. janúar 2022, kl. 10:00
Mættar í fjarfundi: Eydís Harpa, Helga Mjöll, Sólveig og Júlíana leikskólastjóri.
Sólveig ritar fundargerð.
- Farið yfir starfsáætlun fyrir skólaárið 2021-2022 og hún staðfest.
- Heilsuhringur Jötunheima kynntur. Leikskólastjóri kynnir hugmyndir að baki heilsuhringnum og hvernig standi til að kynna hann.
- Umræður um nýtt einkennismerki (e. logo) leikskólans. Leikskólastjóri kynnir framkomnar hugmyndir um nýtt merki og hvað býr að baki þeim. Rætt var um að fullvinna nokkrar tillögur að nýju merki, sem börn, starfsmenn og foreldrar fái að velja/kjósa á milli. Umræður um tilhögun kosninga.
- Skipan foreldraráðs og skipting hlutverka rædd.
Ákveðið að Guðný haldi áfram sem formaður, Sólveig verði ritari og Eydís Harpa og Helga Mjöll meðstjórnendur. Ekki þörf á að skipa fulltrúa í svæðisráð.
- Ákveðið var að birta fundargerðir foreldraráðs á heimasíðu leikskólans.
Fundi slitið 10.30
Fundur foreldraráðs 2. mars 2021 kl. 15:00 í Jötunheimum
Mættar: Helga Mjöll, Eydís Harpa, Guðný, Indlaug og Ingunn sem skrifaði fundargerð
- Fórum yfir starfsáætlunina fyrir skólaárið 2020-2021, foreldraráðið beðið um að koma með ábendingar og punkta í sambandi við hana svo hægt sé að senda hana til fræðslunefndar.
- Fórum yfir skóladagatal 2021-2022. Skipulagsdagar og starfsmannafundir hafa verið settir niður og ýmsir fastir punktar í leikskólastarfinu. Kennarar leikskólans vinna svo áfram með skóladagatalið og setja niður viðburði og daga. Foreldraráð kom með ábendingu um að starfsmannafundir gætu verið kl.14 – 16 eða frá kl. 8 – 12, það kæmi sér betur fyrir foreldra hvað varðar pössun og annað slíkt. Þrátt fyrir þessar ábendingar samþykkir foreldraráð skóladagatalið.
- Inda kynnti styttingu vinnuvikunnar. Í Jötunheimum var kosið um að taka út styttingu vinnuvikunnar í heilan dag aðra hverja viku. Syttingin hefur gengið vel öllu jafna og starfsfólk ánægt með þessa styttingu, allir eiga heilan dag aðra hverja viku og alltaf sami dagurinn í þeirri viku. Einnig upplifa stjórarnir að veikindi og skrepp á vinnutíma hafa minnkað.
- Ingunn kynnti vinnu við agastefnu Jötunheima. Erum í undirbúningsvinnu á agastefnu Jötunheima og höfum til hliðsjónar Uppeldisbókina og ítarefni námskeiðisins Uppeldi sem virkar, færni til framtíðar. Nú þegar hafa allir kennarar leikskólans lesið fyrstu 6 kafla bókarinnar. Agastefnan er hugsuð til að samræma aðferðir við hegðunarbreytingu hjá börnum, að allir kennarar bregðist eins við og beiti sömu uppeldisaðferðum. Nokkrir deildarstjórar eru með réttindi til að halda forelda og kennara námskeið í Uppeldi sem virkar og langar þá að halda seinna meir námskeið fyrir foreldra leikskólans.
- Í vinnslu er leikfangastefna Jötunheima og verður hún kynnt foreldrum þegar hún er tilbúin.
Fundi slitið 15:40