Dagana 19. og 20. júní voru haldin uppeldisnámskeið hér í Jötunheimum sem hluti af þróunarverkefni skólaþjónustu Árborgar. Markmið verkefnisins er að skapa vettvang fyrir fræðslu til foreldra við upphaf leikskólagöngu barnanna hér í Jötunheimum og því fyrsti dagur aðlögunar hugsaður sem viðvera á uppeldisnámskeiðinu án barna.
Námskeiðið var haldið fyrir foreldra barna sem eru fædd 2022 og 2023 og völdu foreldrar annan hvorn daginn til að mæta á námskeiðið. Alls mættu foreldrar 60% barnahópsins. Það er mat þeirra foreldra sem mættu á námskeiði að það hefði verið gagnlegt og fræðandi og staðist væntingar þeirra. Margir nefndu að þau “verkfæri” og leiðir sem kynntar voru á námskeiðinu væru mjög hjálplegar.
Leiðbeinendur námskeiðsins voru þær Hugrún Helgadóttir og Vigdís Anna Kolbeinsdóttir deildarstjórar á Þórsmörk og Laufási en börnin fædd 2022 og 2023 koma til með að vera á þeirra deildum.
Uppeldisnámskeiðið sem um ræðir er námskeiðið Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar sem er sérstaklega þróað fyrir foreldra á Íslandi og stuðst við viðurkennd fræði og vel rannsakaðar aðferðir.
Á námskeiðinu var lögð áhersla á að kenna foreldrum leiðir til að vera samtaka í uppeldinu og skapa æskileg uppeldisskilyrði sem ýtir undir færni sem líkleg er til að nýtast barninu til frambúðar. Foreldrar lærðu aðferðir til að styrkja eigin hæfni, laða fram æskilega hegðun barnsins og fyrirbyggja erfiðleika á jákvæðan hátt.
Við í Jötunheimum styðjumst við Uppeldi sem virkar í t.a.m. agastefnu leikskólans og tileinkum okkur megináherslur námskeiðsins. Við vinnum að því að innleiða námsefnið til kennarahópsins meðal annars með læsislotum og námskeiðum.
Stór hópur leikskólakennara leikskólans hafa leiðbeinendaréttindi námskeiðsins bæði til að halda námskeið fyrir foreldra og kennara leikskólans.
Það er því mikill styrkur fólginn í því að foreldar kynnist áherslum Uppeldi sem virkar og séu meðvitaðir um þær áherslur sem við setjum hér í Jötunheimum er varðar hegðun og samskipti við börn.
Við erum himinsæl með mætinguna á námskeiðin og ætlum okkur að halda annað námskeið í haust, bæði fyrir þá sem komust ekki þessar dagsetningar og þá sem langar að koma á námskeiðið. Þær dagsetningar verða auglýstar síðar.