Sæl öll,
við í Jötunheimum erum nú formlega orðin þátttakendur í verkefninu um Heilsueflandi leikskóla.
Heilsueflandi leikskóla á vegum Embættis landlæknis er ætlað að styðja leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana að hluta af daglegu starfi leikskólans.
Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 eru heilbrigði og velferð skilgreind sem einn af sex grunnþáttum menntunar sem leikskólar eiga að hafa að leiðarljósi og innleiða í öllu sínu starfi.
Mikill samhljómur er með starfi Heilsueflandi leikskóla og grunnþættinum um heilbrigði og velferð. Heilsueflandi leikskóli mun því nýtast leikskólum sem verkfæri til að innleiða grunnþáttinn heilbrigði og velferð.
Heilsueflandi leikskóli leggur sérstaka áherslu á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk.
Hægt er að kynna sér verkefnið nánar á heimasíðunni: https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/item30702/Heilsueflandi-leikskoli
Það skal tekið fram að það eru engar róttækar breytingar að fara í gang í húsinu og við gefum okkur góðan tíma í innleiðingarferlið. Eins og segir í leiðbeiningum frá landlæknisembættinu:
,, Áætla þarf góðan tíma í undirbúning og huga vel að innleiðingarferlinu í þeirri vinnu. Góð grunnvinna og undirbúningur er lykilforsenda þess að innleiðingin gangi vel. Mikilvægt er að ætla sér ekki of mikið í einu heldur að sjá fyrir sér minni áfanga sem eru viðráðanlegir fyrir hvert skólaár. Almennt er talið raunhæft að áætla 5-7 ár í vinnu við innleiðingu áður en viðhald hefst. Hver leikskóli verður að finna sinn takt í starfinu og muna að þetta er langhlaup en ekki átaksverkefni. Sumir leikskólar þurfa lengri tíma til að fara í gegnum ferlið en aðrir styttri tíma. Hafa ber í huga að þessi vinna er fyrst og fremst leikskólanum í hag og til að auðvelda innleiðingu á grunnþættinum Heilbrigði og velferð í aðalnámskrá leikskóla.“
Fyrst og fremst ætlum við að taka þetta á leikgleðinni og standa saman um að gera Jötunheima að enn betri leikskóla þar sem allir fá að blómstra, bæði börn og fullorðnir.
Í dag er búið að stofna heilsuteymi Jötunheima sem sér um innleiðingu verkefnisins. Þegar fram líða stundir verður kallað eftir fulltrúa foreldra í teymið og mun það verða auglýst.
Á heimasíðu Jötunheima er búið að stofna flipa sem heitir Heilsueflandi leikskóli. Þar munum við setja allra nýjustu upplýsingar 🙂