Ytra mat – skýrsla Menntamálastofnunar

Kæru börn og foreldrar/forráðamenn.

Í nóvember fór fram ytra mat á vegum Menntamálastofnunar og búið er að gefa út skýrslu með niðurstöðunum. Í bréfi sem barst frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu segir: „Mennta- og menningarmálaráðuneytið fagnar niðurstöðum ytra matsins en að mati matsmanna er skólastarf í Jötunheimum til fyrirmyndar.“ Á heimasíðu leikskólans er búið að setja inn krækju með skýrslunni í pdf formi og hvetjum við ykkur öll til að kynna ykkur vel innihald skýrslunnar svo og þær ábendingar og tillögur til úrbóta sem fram koma í henni.

https://jotunheimar.arborg.is/hagnytar-upplysingar/mat-a-skolastarfi/

Hér er einnig krækja á skýrsluna: https://jotunheimar.arborg.is/wp-content/uploads/2018/03/Leikskolinn_Jotunheimar_2017-n%C3%BDjasta-n%C3%BDtt.pdf

Næstu skref hjá okkur eru að senda ráðuneytinu umbótaáætlun fyrir 31. maí 2018 um það hvernig við ætlum að bregðast við þeim tillögum og ábendingum sem fram koma í skýrslunni.

Við í Jötunheimum erum mjög stolt af niðurstöðum ytra matsins og hlökkum til að halda áfram á sömu braut. Að lokum vil ég enda á að vitna í lokaorð matsmannanna.

„Ytra mat með vettvangsathugun, viðtölum og greiningu gagna í leikskólanum Jötunheimum leiðir í ljós að þar fer fram metnaðarfullt leikskólastarf. Stefna leikskólans með áherslu á sjálfsprotinn leik birtist mjög vel í starfinu. Skipulag náms og starfsaðstæður eru góðar og börnunum líður vel í leikskólanum. Gott samstarf er við foreldra og voru þeir ánægðir með samskipti við stjórnendur og starfsfólk og telja að börnunum líði vel. Leikskólinn er vel mannaður fagfólki og er stjórnunin til fyrirmyndar. Leikskólastjóri aðhyllist valddreifingu í stjórnun og er til fyrirmyndar hvernig allt starfsfólk kom að gerð skólanámskrár, starfsáætlana, þróunarverkefna og öðru því sem verið er að vinna að í leikskólanum. Starfsandi er með eindæmum góður. Unnið er í teymum og er til fyrirmyndar hvernig allir starfsmenn fá tækifæri til að taka þátt í umræðunni og finna að þeirra rödd skiptir máli. Gott skipulag er í allri stjórnun, verkferlar eru skriflegir og aðgengilegir á heimasíðu leikskólans. Skólabragur er góður og starfsmannhópurinn hefur metnað fyrir góðu starfi.“

Kærar kveðjur

leikskólastjórnendur