Á 10. fundi fræðslunefndar, þriðjudaginn 19. júní 2015, var kynning á nokkrum styrkjum sem fara í skólaþróunarverkefni í Árborg. Stærsti styrkurinn er frá Erasmus+ að upphæð 29.040 evrur (4,3 millj. kr) og fer í verkefnið Nám, störf og lærdómssamfélag, sem grunnskólar sveitarfélagsins og skólaþjónusta Árborgar standa saman að. Markmið náms- og þjálfunarverkefna hjá Erasmus+ fyrir starfsfólk skóla er að styðja við þátttöku íslenskra skóla í alþjóðlegu samstarfi og vinna að markmiðum Evrópusambandsins í skólastarfi, svo sem þróun grunnfærni eins og lesturs og stærðfræði, vinna gegn brotthvarfi og auka gæði í kennslu.
Verkefni Árborgar skiptist í þrjá hluta sem allir miðast við námsferðir til útlanda sem eru hugsaðar til náms og þjálfunar, miðlunar þekkingar í skólum hér á landi og er ætlað að stuðla að enn öflugra námsumhverfi barna í Árborg. Fyrsti hluti þessa Erasmusverkefnis okkar nefnist lærdómssamfélagið, þar er meðal annars leitast við að efla faglega samræðu þar sem hugmyndum og aðferðum um betri kennslu og starfshætti grunnskóla og skólaþjónustu er miðlað með áherslu á árangur á öllum sviðum. Í verkefnishlutanum nám og starf er lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að þroska starfshugsun sína á öllum stigum grunnskólans með fræðslu um störf og kynnist þeim í nærumhverfi sínu, einnig að þau átti sig á því að nám og störf eru órjúfanleg heild. Þriðji verkefnishlutinn fjallar um spjaldtölvur í námi og kennslu. Þar eru markmiðin meðal annars þau að kennarar verði hæfari til að nýta snjalltæknina í kennslu og unnið verði að styrkingu einstaklingsmiðaðs náms. Þátttakendum er ætlað stórt hlutverk í faglegri forystu í skólamálum sveitarfélagsins, m.a. að leiða þróun í notkun upplýsingatækni í skólastarfi og öðrum þeim verkefnum sem unnin verða í þessu evrópska Erasmusverkefni.
Á sama fundi fræðslunefndar var ánægjulegt að geta kynnt fleiri styrki til þróunarverkefna skóla í Árborg. Leikskólinn Árbær fær kr. 1.500.000.- frá Sprotasjóði í verkefnið Læsi í fjölmenningarlegu starfi sem kemur í beinu framhaldi af læsisverkefni allra leikskóla Árborgar sem unnið var að skólaárið 2014-2015 en læsisverkefnið fékk rúmlega 2 milljóna styrk frá Sprotasjóði. Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fær kr. 100.000.- frá Sprotasjóði í verkefnið lestrarmenning á unglingastigi og þar bætir kvenfélagið á Eyrarbakka við kr. 250.000. í sama verkefni og að sögn skólastjóra eru miklar vonir bundnar við þá lesstofu sem verið er að þróa á Eyrarbakka. Þá fær leikskólinn Jötunheimar 4.180 evrur (rúmlega 600.000.- kr.) frá Erasmus+ í verkefnið Improvement of intercultural and project management skills, European development of the school. Loks er rétt að nefna að Lýðheilsusjóður mun styrkja verkefnið Mér líður eins og ég hugsa sem skólaþjónusta Árborgar, félagsþjónustan og heilsugæsla Selfoss standa saman að en það felst í námskeiðahaldi og stuðningi við unglinga sem glíma við kvíða.
Öll verkefnin sýna að fagleg framsækni og metnaður svífur yfir vötnum skólamála í Árborg og því gladdi það okkur öll að sjá bókun bæjarráðs fimmtudaginn 27. maí sl. en ráðið fagnaði þeim styrkjum sem úthlutað hefur verið til verkefna í leik- og grunnskólum Árborgar og þakkar stjórnendum og starfsfólki það frumkvæði sem það hefur sýnt í uppbyggingu skólastarfs í sveitarfélaginu.
Þorsteinn Hjartarson
fræðslustjóri