Ritrýnd fræðigrein um þróunarverkefni leikskólanna í Árborg

Á síðasta skólaári tóku leikskólarnir í Árborg þátt í þróunarverkefni sem styrkt var af Sprotasjóði og fjallaði um félags- og tilfinningahæfni barna. Tveir rannsakendur frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands komu að þróunarverkefninu og tóku þeir meðal annars rýnihópaviðtöl í upphafi og lok þróunarverkefnisins.
Félags- og tilfinningahæfni barna er mikilvægur þáttur í menntun leikskólabarna og undirstaða frekara náms og þátttöku í lýðræðissamfélagi. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig starfsfólk leikskóla þróaði leiðir til að styðja við félags- og tilfinningalegt nám barna í leik og daglegu starfi og hvernig hlúð er að vináttu þeirra og samskiptum. Tilgangurinn var því að varpa ljósi á hvernig hægt væri að styðja við félags- og tilfinningahæfni barna í leik og daglegu starfi í leikskólum.
Líta má á þróunarverkefnið sem mikilvægt upphaf fyrir þátttakendur til að innleiða og þróa áfram árangursríkar leiðir til að styðja við félags- og tilfinningalegt nám barna. Með áframhaldandi fræðslu og þjálfun starfsfólks, endurskoðun á skipulagi og rými leikskólans og auknu samstarfi við foreldra má stuðla að betri samskiptum, vináttu og vellíðan barna í leikskólum.
Skrifuð hefur verið ritrýnd grein um verkefnið og hvetjum við alla þá sem hafa áhuga á að fræðast meira um verkefnið að lesa hana hér að neðan: