Dagur leikskólans

Komið öll blessuð og sæl

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins miðvikudaginn 6. febrúar. Þetta er í tólfta skipti sem haldið er upp á daginn en 6. febrúar er merkilegur dagur í leikskólasögu þjóðarinnar því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.

Tilgangur Dags leikskólans er að vekja athygli á hlutverki leikskóla og starfi leikskólakennara. 

Kennarasamband Íslands efndi til ritlistarkeppni, Að yrkja á íslensku, meðal leikskólabarna í tilefni dagsins. Verkefnið var að yrkja á íslensku; á hvaða formi sem er (ljóð, vísur, sögur o.s.frv.) og efnistök voru frjáls. Samkeppnin var liður í vitundarvakningu sem KÍ hratt af stað á Alþjóðadegi kennara í haust. Þá var ákveðið að setja móðurmálið í forgang og vinna að verndun og eflingu þess. Vel á annað hundrað ljóð, textar og sögur bárust frá leikskólabörnum og veitt voru þrenn verðlaun í keppninni.

Bjarkey Sigurðardóttir, nemandi á Sunnuhvoli, sendi inn ljóðið Sumar sem hún samdi og hlaut hún verðlaun fyrir það í ritlistarkeppninni. Við óskum henni innilega til hamingju.

Hér að neðan má sjá frétt af heimasíðu KÍ. 

Að yrkja á íslensku – sólblítt sumar og snakk

Bjarkey Sigurðardóttir, nemandi í leikskólanum Jötunheimum á Selfossi, bar sigur úr býtum í ritlistarsamkeppninni Að yrkja á íslensku sem Kennarasambandið efndi til í tilefni Dags leikskólans. Bjarkey tók við viðurkenningu úr hendi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á samkomu í leikskólanum Brákarborg í Reykjavík í morgun. Verðlaunaljóð Bjarkeyjar ber titilinn Sumar.


Sumar
Sumar er sólblítt,
gaman er þá.
Að dansa í sumarkjólnum
og borða snakk. 
 

Umsögn dómnefndar: Haglega samið ljóð í ætt við ferskeytlu að formi og fjallar um þá tilfinningu þegar sumarið hellist yfir mann af fullum þunga. Orðið „sólblítt“ er ljóðrænt og sérstaklega skemmtilegt og bendir til myndrænnar og skapandi hugsunar ljóðskáldsins.

Bjarkey Sigurðardóttir og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.