Undanfarnar vikur hefur ýmislegt skemmtilegt á daga okkar drifið.
Hreystivikan var í síðustu viku og markar hún formleg endalok á skipulagðri hreyfingu skólaárins. Í hreystivikunni fóru öll börn og kennarar leikskólans í Selfosshöllina, tveir elstu árgangarnir á mánudeginum og tveir yngri árgangarnir á föstudeginum. Í Selfosshöllinni var leikið í þrautabraut og frjálst.
Í sömu vikunni var einnig hjóladagur, dans og tónlist á útisvæði og sumarsprell með ýmsum þrautum á föstudeginum. Rigningardag hreystivikunnar nutum við þess að sulla og hlaupa í rigningunni og bjuggum til meiri rigningu með því að nota garðaúðara til að sprauta yfir okkur.
Í upphafi þessarar viku nutu nemendur og kennarar sýningarinnar Mjallhvít í minningu Emmu Lífar sem hefði orðið 10 ára í ár.
Emma Líf var nemandi í leikskólanum Jötunheimum en hún kvaddi okkur fyrir 5 árum síðan eftir erfið veikindi. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í lífi hennar og minningarnar varðveitum við í hjörtum okkar. Sýningin, sem Leikhópurinn Lotta sýndi, var í boði foreldra Emmu Lífar.
Þessa viku fengum við einnig tvo fjórfætta félaga þá Snilling og Glóa til okkar. Þeir félagar röltu einn hring með þau börn sem það vildu. Óhætt er að segja að þessi heimsókn hafi vakið mikla lukku og var meiri hluti barnanna sem þáði að fara á hestbak.
Í lok vikunnar kom foreldrafélag leikskólans með gjöf til okkar. Þau færðu okkur segulkubba og fóru þeir strax inn á Valhöll og nýtast vel í leik og starfi.