Leikskólinn lokar 13:30 á mánudaginn 24.október 2016

Kæru foreldrar og fjölskyldur

Jötunheimar verða lokaðir á mánudaginn 24. október 2016 frá kl. 13:30 vegna samstöðufundar á Austurvelli í Reykjavík kl. 15:00. Hér fyrir neðan eru meiri upplýsingar.

 

KVENNAFRÍ 2016 – KJARAJAFNRÉTTI STRAX!

Mánudaginn næstkomandi, þann 24. október 2016, eru konur hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38, mæta á samstöðufundi og/eða taka þátt á táknræna hátt í samstöðu um kröfuna um „kjarajafnrétti strax“. Útifundir verða haldnir á Austurvelli í Reykjavík og Ráðhústorgi á Akureyri.

Á vef viðburðarins, www.kvennafri.is, segir meðal annars: „Meðalatvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri tekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Þann 24. október árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Árið 1985 héldum við upp á kvennafrídaginn í annað sinn og aftur lögðu 25.000 konur niður vinnu. Árið 2005 héldum við upp á kvennafrídaginn í þriðja sinn og konur gengu í tugþúsunda tali út af vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við karla. Þá gengu konur út klukkan 14:08. Árið 2010 gengu konur út klukkan 14:25.

Nú göngum við út klukkan 14:38. Við höfum grætt hálftíma á ellefu árum. Tæplega þrjár mínútur á hverju ári. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í 52 ár eftir að hafa sömu laun og sömu kjör og karlar, til ársins 2068! Það er óásættanlegt!“.

Kennarasamband Íslands hvetur sveitarfélög til að sýna konum stuðning í baráttunni fyrir jöfnum kjörum og gera starfskonum sveitarfélaganna kleift að taka þátt í viðburðum dagsins. Það mætti til dæmis gera með því að hvetja karla, feður, afa, bræður og frændur, til að sækja börn í skóla og frístund kl. 14 þennan dag.

Að fundinum standa samtök launafólks og samtök kvenna: Alþýðusamband Íslands, BSRB, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, Aflið, Bandalag kvenna í Reykjavík, Bríet – félag ungra feminista, Delta Kappa Gamma, Druslubækur og doðrantar, Druslugangan, Dziewuchy Dziewuchom Islandia – Konur konum Ísland, Í kjölfar Bríetar, Jafnréttisfélag Háskólans í Reykjavík, Femínistafélag Háskóla Íslands, Femínistafélag Íslands, Félag kvenna í atvinnulífinu, Kítón – Konur í tónlist, Knúz.is, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennahreyfing Samfylkingarinnar, Kvennahreyfing Viðreisnar, Kvennahreyfing ÖBÍ, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamband Framsóknarkvenna, Landssamband Sjálfstæðiskvenna, Rótin, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um kvennaathvarf, Samtökin ’78, Soroptimistasamband Íslands, Sólstafir, Stígamót, Tabú, UNWomen, WIFT – Konur í kvikmyndum og sjónvarpi og Zontasamband Íslands.

 

Kærar kveðjur

Starfsfólk Jötunheimar