Orðaskil – málþroskapróf

Á haustmánuðum 2015 var tekin sú ákvörðun, á samstarfsfundi starfsfólks skólaþjónustu og leikskólastjóra, að á árinu 2016 yrði skimunartækjum í leikskólum  Árborgar fjölgað með því að taka í  notkun málþroskaprófið Orðaskil. Höfundur þess er  Elín Þöll Þórðardóttir, talmeina­fræðingur. 

Málþroska­­prófið byggir á orðaforðagátlista fyrir börn á aldrinum eins og hálfs til þriggja ára. Prófinu er ætlað að mæla orða­forða barn­a svo og hvort þau hafa náð valdi á beygingar­kerfi og setning­a­gerð. Skólar og skólaþjónusta í Árborg leggja áherslu á snemmtækt mat á stöðu barna með aukinni notkun skim­un­ar­­tækja í leik– og grunn­skólum og skipuleggja sem fyrst viðeigandi þjálfun og kennslu út frá niður­stöðum skimunarprófa. Þegar er byrjað að leggja Orðaskil fyrir og áætlað er að það verði gert einu sinni á leikskólagöngu barns á bilinu 2,9 ára til 3,0 ára. Ef barn mælist einu staðalfráviki eða meira frá meðaltali í orðaforða eða setningagerð jafnaldra er veitt viðeigandi íhlutun. Farið verður yfir niðurstöður í foreldraviðtölum.