Leikskólinn Jötunheimar auglýsir eftirfarandi stöður lausar til umsóknar

Leikskólakennarar

Jötunheimar auglýsir eftir leikskólakennurum í 100% starfshlutfall frá og með 9. ágúst 2018.

Menntun og hæfniskröfur:

 • Leikskólakennararéttindi
 • Góð íslensku kunnátta
 • Áhugi, reynsla og hæfni í starfi með börnum
 • Jákvæðni, frumkvæði og góður samstarfsvilji
 • Góð færni í mannlegum samskiptum
 • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
 • Færni til að tjá sig í ræðu og riti

Helstu verkefni og ábyrgð:

 • Starfar samkvæmt lögum og reglugerð um leikskóla, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá leikskóla og skólastefnu Árborgar.
 • Vinnur að uppeldi og menntun barnanna. Fylgist vel með velferð þeirra og hlúir að þeim andlega og líkamlega í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins svo að þau fái notið sín sem einstaklingar.
 • Tekur þátt í gerð skólanámskrár, mati á starfsemi leikskólans og þróunarverkefnum undir stjórn leikskólastjóra.
 • Tekur þátt í skipulagningu faglegs starfs deildarinnar undir stjórn deildarstjóra.
 • Vinnur í nánu samstarfi við foreldra/forráðamenn barnanna.
 • Situr foreldrafundi, sem haldnir eru á vegum leikskólans.
 • Tekur þátt í samstarfi við ýmsar stofnanir og sérfræðinga sem tengjast leikskólanum í samráði við deildarstjóra.
 • Situr starfsmannafundi og aðra fundi er yfirmaður segir til um og varðar starfsemi leikskólans.
 • Sinnir þeim verkefnum er varðar uppeldi og menntun barnanna sem yfirmaður felur honum.

Störfin henta jafnt körlum sem konum og launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

Umsóknarfrestur er til 15. maí 2018.

Frekari upplýsingar veitir:

Júlíana Tyrfingsdóttir leikskólastjóri Jötunheima, sími 480-6372, netfang: julianat@arborg.is

Rýmingaræfing

Í morgun var rýmingaræfing í Jötunheimum. Hún gekk þannig fyrir sig að brunakerfið var ræst klukkan 10:30 og húsið rýmt í kjölfarið. Hringt var í 112 og óskað var eftir dælubíl frá Brunavörnum Árnessýslu til þess að æfingin yrði eins raunveruleg og hægt var.  Allt gekk vel og fumlaust fyrir sig og tilvalið fyrir ykkur kæru foreldrar að ræða upplifun barnanna þegar heim er komið. Nú vinnum við í að endurmeta rýmingaráætlun skólans og þegar þeirri vinnu er lokið verður hún sett á heimasíðu leikskólans.

Kveðja leikskólastjóri

Gleðilega páska

Við óskum ykkur öllum gleðilegra páska 🙂

Ytra mat – skýrsla Menntamálastofnunar

Kæru börn og foreldrar/forráðamenn.

Í nóvember fór fram ytra mat á vegum Menntamálastofnunar og búið er að gefa út skýrslu með niðurstöðunum. Í bréfi sem barst frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu segir: „Mennta- og menningarmálaráðuneytið fagnar niðurstöðum ytra matsins en að mati matsmanna er skólastarf í Jötunheimum til fyrirmyndar.“ Á heimasíðu leikskólans er búið að setja inn krækju með skýrslunni í pdf formi og hvetjum við ykkur öll til að kynna ykkur vel innihald skýrslunnar svo og þær ábendingar og tillögur til úrbóta sem fram koma í henni.

http://jotunheimar.arborg.is/hagnytar-upplysingar/mat-a-skolastarfi/

Hér er einnig krækja á skýrsluna: http://jotunheimar.arborg.is/wp-content/uploads/2018/03/Leikskolinn_Jotunheimar_2017-n%C3%BDjasta-n%C3%BDtt.pdf

Næstu skref hjá okkur eru að senda ráðuneytinu umbótaáætlun fyrir 31. maí 2018 um það hvernig við ætlum að bregðast við þeim tillögum og ábendingum sem fram koma í skýrslunni.

Við í Jötunheimum erum mjög stolt af niðurstöðum ytra matsins og hlökkum til að halda áfram á sömu braut. Að lokum vil ég enda á að vitna í lokaorð matsmannanna.

„Ytra mat með vettvangsathugun, viðtölum og greiningu gagna í leikskólanum Jötunheimum leiðir í ljós að þar fer fram metnaðarfullt leikskólastarf. Stefna leikskólans með áherslu á sjálfsprotinn leik birtist mjög vel í starfinu. Skipulag náms og starfsaðstæður eru góðar og börnunum líður vel í leikskólanum. Gott samstarf er við foreldra og voru þeir ánægðir með samskipti við stjórnendur og starfsfólk og telja að börnunum líði vel. Leikskólinn er vel mannaður fagfólki og er stjórnunin til fyrirmyndar. Leikskólastjóri aðhyllist valddreifingu í stjórnun og er til fyrirmyndar hvernig allt starfsfólk kom að gerð skólanámskrár, starfsáæ tlana, þróunarverkefna og öðru því sem verið er að vinna að í leikskólanum. Starfsandi er með eindæmum góður. Unnið er í teymum og er til fyrirmyndar hvernig allir starfsmenn fá tækifæri til að taka þátt í umræðunni og finna að þeirra rödd skiptir máli. Gott skipulag er í allri stjórnun, verkferlar eru skriflegir og aðgengilegir á heimasíðu leikskólans. Skólabragur er góður og starfsmannhópurinn hefur metnað fyrir góðu starfi.“

Kærar kveðjur

leikskólastjórnendur

Áfangaskýrsla þróunarverkefnisins.

Búið er að gefa út áfangaskýrslu þróunarverkefnisins „Við erum eins og samfélag“ – Uppbygging lærdómssamfélags í Jötunheimum.

Hana er að finna undir flipanum merktum þróunarverkefninu sem og hér. Áfangaskýrsla.

Dagur leikskólans, 6. febrúar 2018

Dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur hér í Jötunheimum þriðjudaginn 6. febrúar 2018. Þetta er í 11. skipti sem haldið er upp á dag leikskólans en 6. febrúar árið 1950 stofnuð frumkvöðlar leikskólakennara sín fyrstu samtök.

Af því tilefni verður opið hús í leikskólanum Jötunheimum frá klukkan 9:30-11:30 og 13:00-15:00. Í salnum ætlum við að vera með litla sýningu þar sem við kynnum brot af því starfi sem fram fer í leikskólanum.

Allir hjartanlega velkomnir.

 

Sumarleyfi í Jötunheimum 2018

Sumarleyfi í Jötunheimum 2018

Samþykkt var á fræðslunefndarfundi 12. apríl 2017 að sumarleyfi í leikskólum Árborgar 2018 væru frá og með 5. júlí til og með 8. ágúst 2018. Við opnum aftur fimmtudaginn 9. ágúst 2018.

 

Hér er hægt að lesa fundargerðina https://www.arborg.is/31-fundur-fraedslunefndar/

Jólakveðja 2017

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á liðnu ári.

Megi komandi ár verða farsælt og gjöfult í leik og starfi.

Hafið það gott um jól og áramót.

Jólakveðja

Starfsfólk Jötunheima

Jólaball 2017

Á morgun verða litlu jólin hjá okkur í Jötunheimum.

Í hádegismat fáum við jólamat að borða og jólaböllin byrja síðan klukkan 13:15 hjá eldri deildunum og 14:15 hjá yngri deildunum.

Gjaldskrárbreytingar

Kæru foreldrar/forráðamenn

Á 41. fundi bæjarstjórnar, 13. desember 2017, var samþykkt að breyta gjaldskrá fyrir leikskóla, mat í leikskólum, skólavistun og skólamat í grunnskólum frá og með 1. janúar 2018. Gjaldskráin verður aðgengileg á heimasíðu Árborgar, heimasíðu leikskólans og í forstofum leikskólans um áramót.

Við viljum einnig minna á að ef foreldrar/forráðamenn óski eftir að breyta dvalartíma og eða/kaupum á mat/hressingu verða þeir að tilkynna það viðkomandi leikskólastjóra eigi síðar en 15. hvers mánaðar. Breyting á gjaldtöku tekur þá gildi næstu mánaðamót á eftir.

Ef einhverjar spurningar vakna þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við leikskólastjóra.