Fyrirlestur fyrir foreldra í Jötunheimum þriðjudaginn 17.nóvember kl.8:10

Fyrirlestur um kennsluefnið Lubbi finnur málbein

 Fyrirlesturinn verður haldinn í salnum í Jötunheimum þriðjudaginn 17.nóvember kl. 8:10.

Í fyrirlestrinum verður læsi í skólastarfi Jötunheima kynnt en þar er unnið með kennsluefni sem byggt er á bókinni Lubbi finnur málbein, íslensku málhljóðin sýnd og sungin, sem er eftir þær Eyrúnu Ísfold Gísladóttur og Þóru Másdóttur.

Kennsluefnið gengur út á að börnin kenna íslenska fjarhundinum Lubba að læra öll íslensku málhljóðin með söng og ýmsum öðrum æfingum. Í bókinni eru stuttar sögur sem tengjast hverju hljóði en í henni má finna hljóðið fremst í orði, inni í orði eða aftast í orði. Sögurnar geyma fjölbreyttan orðaforða og hvetja til auðugs málfars. Spurningar í sögulok gefa færi á áhugaverðum samræðum, rökræðum og vangaveltum.

Í bókinni Lubbi finnur málbein er unnið með nám í þrívídd, með því er átt við sjónskyn, heyrnarskyn og hreyfi- og snertiskyn. Þegar unnið er með hljóðnám í þrívídd er verið að æfa börnin í að tileinka sér íslensku málhljóðinn, það brúar bilið milli stafs og hljóðs og að lokum kemur þetta börnum á sporið í lestri og ritun.

Í fyrirlestrinum fá foreldrar tækifæri til að kynna sér aðgengilegt og skemmtilegt efni sem unnið er með í Jötunheimum á lifandi og myndrænan hátt.