Heilsueflandi leikskóli

Sæl öll,

við í Jötunheimum erum nú formlega orðin þátttakendur í verkefninu um Heilsueflandi leikskóla.

Heilsueflandi leikskóla á vegum Embættis landlæknis er ætlað að styðja leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana að hluta af daglegu starfi leikskólans.

Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 eru heilbrigði og velferð skilgreind sem einn af sex grunnþáttum menntunar sem leikskólar eiga að hafa að leiðarljósi og innleiða í öllu sínu starfi.

Mikill samhljómur er með starfi Heilsueflandi leikskóla og grunnþættinum um heilbrigði og velferð. Heilsueflandi leikskóli mun því nýtast leikskólum sem verkfæri til að innleiða grunnþáttinn heilbrigði og velferð.

 Heilsueflandi leikskóli leggur sérstaka áherslu á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk.

Hægt er að kynna sér verkefnið nánar á heimasíðunni: https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/item30702/Heilsueflandi-leikskoli

Það skal tekið fram að það eru engar róttækar breytingar að fara í gang í húsinu og við gefum okkur góðan tíma í innleiðingarferlið.  Eins og segir í leiðbeiningum frá landlæknisembættinu:

,, Áætla þarf góðan tíma í undirbúning og huga vel að innleiðingarferlinu í þeirri vinnu. Góð grunnvinna og undirbúningur er lykilforsenda þess að innleiðingin gangi vel. Mikilvægt er að ætla sér ekki of mikið í einu heldur að sjá fyrir sér minni áfanga sem eru viðráðanlegir fyrir hvert skólaár. Almennt er talið raunhæft að áætla 5-7 ár í vinnu við innleiðingu áður en viðhald hefst. Hver leikskóli verður að finna sinn takt í starfinu og muna að þetta er langhlaup en ekki átaksverkefni. Sumir leikskólar þurfa lengri tíma til að fara í gegnum ferlið en aðrir styttri tíma. Hafa ber í huga að þessi vinna er fyrst og fremst leikskólanum í hag og til að auðvelda innleiðingu á grunnþættinum Heilbrigði og velferð í aðalnámskrá leikskóla.“

Fyrst og fremst ætlum við að taka þetta á leikgleðinni og standa saman um að gera Jötunheima að enn betri leikskóla þar sem allir fá að blómstra, bæði börn og fullorðnir.

Í dag er búið að stofna heilsuteymi Jötunheima sem sér um innleiðingu verkefnisins. Þegar fram líða stundir verður kallað eftir fulltrúa foreldra í teymið og mun það verða auglýst.

Á heimasíðu Jötunheima er búið að stofna flipa sem heitir Heilsueflandi leikskóli. Þar munum við setja allra nýjustu upplýsingar 🙂

Endurskoðun skólastefnu Sveitarfélagsins Árborgar

Stýrihópur er nú að vinna að endurskoðun skólastefnu Sveitar­félagsins Árborgar. Mikilvægur hluti þeirrar vinnu er að fá hugmyndir frá sem flestum úr skólasamfélaginu. Þegar hefur læsisstefna verið gefin út sem er mikilvægur hluti skólastefnunnar, hugarflugsfundurvar haldinn með nemendum síðastliðið vor og ábendingavefur hefur verið opnaður á heimasíðu Árborgar.

Næsti hugarflugsfundur verður haldinn í Sunnulækjarskóla miðviku­daginn 22. nóvember 2017 kl. 17:30-19:30. Þangað eru allir vel­komnir og súpuhressing verður í boði fræðslusviðs Árborgar.

Á fundinum verður unnið með þjóðfundarformi. Gamla skóla­stefnan er aðgengileg á heimasíðu Árborgar, sjá hér.

Allir áhugasamir hvattir til að mæta.
Stýrihópur um endurskoðun skólastefnu Árborgar.

Skoppa og Skrítla

Í morgun komu Skoppa og Skrítla til okkar í boði foreldrafélagsins. Þær mættu hingað með glens, grín og ótrúlega flotta sýningu sem börnin fengu að vera þátttakendur í. Börnin voru ótrúlega ánægð með sýninguna og sérstaklega í lokin þegar hver deild fékk að taka mynd af sér með þeim. Hér eru nokkrar myndir og viljum við þakka foreldrafélaginu kærlega fyrir gjöfina.

 

Jötunheimar fékk tvö hjól í gjöf

Í dag fengum við tvö ofsalega skemmtileg hjól að gjöf frá foreldrum Benedikts Jóns á Fagurgerði en hann er að útskrifast úr leikskólanum í vor.  Annað hjólið er ætlað yngri börnunum og hitt er ætlað þeim eldri.   Við þökkum Baldri Má og Jill kærlega fyrir góðar gjafir.

Gjöf frá foreldrafélaginu

Körfuknattleiksdeild FSU færði okkur fjóra körfubolta að gjöf fyrr í vetur. Foreldrafélagið okkur kom síðan færandi hendi og gaf okkur körfuboltaspjald. Það hefur strax sýnt sig að mikill áhugi er á körfuboltanum og má því segja að þetta hafi slegið í gegn. Við þökkum fyrir góðar gjafir.

Leikskólinn er lokaður 19. og 21. apríl vegna starfsdags kennara.

Kæru börn og foreldrar

Leikskólinn verður lokaður miðvikudaginn 19. apríl og föstudaginn 21. apríl vegna starfsdags kennara.

Kveðja, leikskólastjóri.

Leikskólinn Jötunheimar auglýsir eftirfarandi stöður lausar til umsóknar

Leikskólinn Jötunheimar auglýsir eftirfarandi stöður lausar til umsóknar

Deildarstjóri Jötunheimar auglýsir eftir deildarstjóra í 100% starfshlutfall frá og með 10. ágúst 2017.

Menntun og hæfniskröfur: 

 • Leikskólakennaramenntun
 • góð íslensku kunnátta
 • áhugi, reynsla og hæfni í starfi með börnum
 • góðir skipulagshæfileikar
 • jákvæðni, frumkvæði og góður samstarfsvilji
 • góð færni í mannlegum samskiptum
 • sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
 • færni til að tjá sig í ræðu og riti

Helstu verkefni og ábyrgð: 

 • Starfar samkvæmt lögum og reglugerð um leikskóla, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá leikskóla og skólastefnu Árborgar
 • Tekur þátt í gerð skólanámskrár, ársáætlunar, mati á starfsemi leikskólans og þróunarverkefnum undir stjórn leikskólastjóra.
 • Ber ábyrgð á stjórnun, skipulagningu, framkvæmd og mati starfsins á deildinni
 • Annast daglega verkstjórn á deildinni og ber ábyrgð á að miðla upplýsingum innan deildarinnar, milli deilda leikskólans og milli leikskólastjóra og deildarinnar.
 • Ber ábyrgð á og stýrir deildarfundum og skipuleggur undirbúningstíma starfsfólks deildarinnar.
 • Hefur umsjón með móttöku, þjálfun og leiðsögn nýrra starfsmanna deildarinnar.
 • Fylgist með að deildin sé búin nauðsynlegum uppeldis- og kennslugögnum í samvinnu við leikskólastjóra.
 • Ber ábyrgð á að unnið sé eftir skólanámskrá og ársáætlun leikskólans á deildinni.
 • Tryggir að sérhvert barn á deildinni fái kennslu, leiðsögn, umönnun og/eða sérkennslu eftir þörfum.
 • Ber ábyrgð á að meðferðaráætlunum sérfræðinga vegna einstakra barna sé framfylgt.
 • Skipuleggur samvinnu við foreldra/forráðamenn barnanna á deildinni s.s. aðlögun, dagleg samskipti og foreldraviðtöl.
 • Ber ábyrgð á að foreldrar/forráðamenn fái upplýsingar um þroska og líðan barnsins og þá starfsemi er fram fer á deildinni og ekki varðar trúnað gagnvart öðrum börnum og foreldrum/forráðamönnum þeirra.
 • Situr foreldrafundi, sem haldnir eru á vegum leikskólans.
 • Ber ábyrgð á að leitað sé samþykkis foreldra/forráðamanna barns, áður en leitað er aðstoðar annarra sérfræðinga.
 • Skipuleggur samvinnu við ýmsar stofnanir og sérfræðinga sem tengjast leikskólanum í samráði við leikskólastjóra.
 • Situr starfsmannafundi, deildarstjórafundi og aðra fundi er yfirmaður segir til um og varðar starfsemi leikskólans.
 • Sinnir þeim verkefnum er varða uppeldi og menntun barnanna og stjórnun deildarinnar sem yfirmaður felur honum. 

 

Leikskólakennarar Jötunheimar auglýsa eftir leikskólakennurum í 100% starfshlutfall frá og með 10. ágúst 2017.

Menntun og færnikröfur:

 • Leikskólakennararéttindi
 • góð íslensku kunnátta
 • áhugi, reynsla og hæfni í starfi með börnum
 • góðir skipulagshæfileikar
 • jákvæðni, frumkvæði og góður samstarfsvilji
 • góð færni í mannlegum samskiptum
 • sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
 • færni til að tjá sig í ræðu og riti 

Helstu verkefni og ábyrgð:

 • Starfar samkvæmt lögum og reglugerð um leikskóla, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá leikskóla og skólastefnu Árborgar.
 • Vinnur að uppeldi og menntun barnanna. Fylgist vel með velferð þeirra og hlúir að þeim andlega og líkamlega í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins svo að þau fái notið sín sem einstaklingar.
 • Tekur þátt í gerð skólanámskrár, mati á starfsemi leikskólans og þróunarverkefnum undir stjórn leikskólastjóra.
 • Tekur þátt í skipulagningu faglegs starfs deildarinnar undir stjórn deildarstjóra.
 • Vinnur í nánu samstarfi við foreldra/forráðamenn barnanna.
 • Situr foreldrafundi, sem haldnir eru á vegum leikskólans.
 • Tekur þátt í samstarfi við ýmsar stofnanir og sérfræðinga sem tengjast leikskólanum í samráði við deildarstjóra.
 • Situr starfsmannafundi og aðra fundi er yfirmaður segir til um og varðar starfsemi leikskólans.
 • Sinnir þeim verkefnum er varðar uppeldi og menntun barnanna sem yfirmaður felur honum.

Umsóknarfrestur er til 15. apríl 2017. Jötunheimar:  http://jotunheimar.arborg.is/

Frekari upplýsingar veitir: Júlíana Tyrfingsdóttir leikskólastjóri Jötunheima, sími 480-6372, netfang:  julianat@arborg.is

Störfin henta jafnt körlum sem konum og launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

Í dag, mánudaginn 6. febrúar, er dagur leikskólanna.

Í tilefni hans er haldin hátíð í leikskólum landsins í tíunda sinn, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið.

Við í Jötunheimum fórum í gönguferð í nærumhverfi leikskólans með fána sem hver deild var búin að útbúa. Hér er að líta nokkrar myndir af skrúðgöngunni.

 

 

 

 

 

 

Starfsdagur 21.febrúar 2017

Leikskólinn verður lokaður þriðjudaginn 21. febrúar vegna starfsdags kennara til klukkan 12:00. Þá opnum við og bjóðum upp á léttan hádegisverð.

Dagskrá:

 • Þróunarverkefnið Námsmat á mörkum skólastiga.

Gjöf frá foreldrafélagi Jötunheima

Okkur hefur borist ofsalega góð gjöf frá foreldrafélagi Jötunheima. Þau gáfu okkur stafræna smásjá. Hún mun nýtast okkur  vel í skólastarfinu til þess að rannsaka allt milli himins og jarðar. Við getum tengt hana við tölvu og þannig fengið stóra og góða mynd af því sem við erum að skoða. Við getum síðan tengt tölvuna við skjávarpann í salnum og þannig nýtt stóra sýningartjaldið okkar. Endalausir möguleikar sem við hlökkum til að rannsaka. Takk kærlega fyrir okkur kæra foreldrafélag.