Fræðsla til foreldra

Sem hluti af þróunarverkefni um farsæld barna skólaársið 2023 – 2024 var markmið þess að auka stuðning við foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Í október síðastliðnum var send könnun þar sem foreldrar voru spurðir hvað þeir vildu helst fræðast um sem tengist uppeldi barna og leikskólastarfi. Einnig var spurt með hvaða hætti þau vildu fá fræðsluna.

Alls bárust 41 svar og voru niðurstöðurnar mjög gagnlegar.

 

Stofnað var teymi innan leikskólans til að sinna þessum þætti verkefnisins.

Ákveðið var að byrja með svokallaða Gull- og fræðslumola þar sem ýmis viðfangsefni og fræðsla eru kynnt í stuttu ritmáli. Þessir molar eru sendir heim í gegnum tölvupóst og eru einnig aðgengilegir á heimasíðu leikskólans.

Í mars síðastliðnum var haldið fræðsluerindi fyrir foreldra um að setja mörk. Góð mæting var á fræðsluerindið og sköpuðust góðar umræður um efni fræðsluerindisins. Næsta fræðsluerindi verður haldið 30. maí n.k. og mun það fjalla um leik og félagstengls.

Í maí var farið af stað með verkefni með foreldrum tví- og fjöltyngdra barna. Markmið verkefnisins er að styrkja íslenskukunnáttu fjöltyngdra barna og auka samstarf heimilis og leikskóla þegar kemur að íslenskukennslu. Verkefnið snýr að því að leikskólinn býður börnum að fá íslenskar bækur lánaðar í viku í senn til að hafa heima. Með bókinni fylgir myndablað með áhersluorðum bókarinnar og hljóðupptaka þar sem bókin er lesin upp. Markmiðið er að börn og foreldrar hlusti saman á bókina og læri saman þau orð sem koma fram í bókinni.

Það er óhætt að segja að ýmislegt hefur verið reynt til að efla fræðslu til foreldra og við vonum að þeir njóti góðs af.